Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfirskattanefnd úrskurðar um Wintris

02.10.2017 - 14:03
Mynd með færslu
Hjónin Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Mynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson - Facebook
Yfirskattanefnd hefur fellt niður hluta þeirra breytinga sem ríkisskattstjóri gerði á skattframtölum, sem hjónin Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir kærðu til nefndarinnar. Hjónin óskuðu í fyrra eftir því að skattframtöl þeirra yrðu leiðrétt nokkur ár aftur í tímann vegna aflandsfélagsins Wintris.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vék úr stóli forsætisráðherra í fyrravor eftir að í ljós kom að hann og eiginkona hans áttu um milljarð króna í félaginu Wintris á Bresku jómfrúareyjum. Félagið er nú aðeins í eigu eiginkonu Sigmundar Davíðs. 

Um miðjan maí í fyrra óskuðu þau eftir að skattframtöl þeirra fyrir gjaldárin 2011 til 2015 yrðu leiðrétt. Í erindi þeirra kemur fram að ekki sé útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum þeirra í samræmi við svokallaðar CFC reglur. 

Gerðir voru ársreikningar fyrir Wintris í fyrra fyrir árin 2011 til 2015 í íslenskum krónum þar sem ýmist kom fram gengishagnaður eða gengistap. Ríkisskattstjóri taldi þeim ekki heimilt að telja fram í íslenskum krónum. Og í desember í fyrra úrskurðaði ríkisskattstjóri að hann féllist á að þau höguðu skattskilum sínum eins og fram hafi komið í erindi þeirra með þeim breytingum þó að ekki væri heimilt að gera upp í íslenskum krónum og því væri ónotað tap Önnu Sigurlaugar um 51 milljón króna í stað rúmra 162 milljóna eins og Sigmunur Davíð og Anna Sigurlaug töldu rétt. Ríkisskattstjóra er heimilt að leggja á 25 prósenta álag en gerði ekki í úrskurði sínum. Sigmundur Davíð segir í grein um málið í Fréttablaðinu í morgun að ljóst hafi þótt að ekki hafi verið gerð tilraun til skattaundanskots. Fyrir vikið hafi ekki þurft að greiða álag af viðbótarupphæðinni. Það er hækkuðum skattstofni. 

Yfirskattanefnd fellst í 15 blaðsíðna úrskurði sínum á að þeim sé heimilt að haga uppgjöri Wintris í íslenskum krónum. Ekki kemur fram í úrskurðinum hvað þau eiga samtals að greiða háa fjárhæð í viðbótarskatt vegna endurálagningar ríkisskattstjóra. En yfirskattanefnd lækkaði skattstofn þeirra um um það bil 50 milljónir í þeim hluta sem hún fjallaði um, það er vegna gengishagnaðar og -taps. Hjónin gerðu kröfur um að málskostnaður að fjárhæð 2,1 milljón yriði greidd úr ríkissjóði. Yfirskattanefnd telur að ekki sé hægt að réttlæta slíkan kostnað með tilliti til sakarefnis og umfangs og úrskurðaði málskostnaðinn því 500 þúsund krónur. 

Fjallað er um málið í Kjarnanum í morgun. Þar segir að aflandsfélagið Wintris hafi ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur um árabil. Mánuði eftir að tilvist félagsins hafi verið opinberuð hafi Sigmundur Davíð, þáverandi forsætisráðherra, og kona hans óskað eftir leiðréttingu á skattframtölum sínum og í því hafi þau gengist við því að skattstofn eigna Wintris hafi verið vantalinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚv - Kastljós
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV