Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Yfirlæknir óttast ekki aukið álag

28.04.2011 - 20:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Heimilislæknar sem sinnt hafa næturvitjunum segja enga hagræðingu felast í því að leggja hana niður. Þvert á móti geti kostnaðurinn aukist þegar upp er staðið. Yfirlæknir báðamóttökunnar óttast ekki aukið álag. Einhvers staðar verði að skera niður.

Frá og með mánaðamótum geta sjúklingar á höfuðborgarsvæðinu ekki fengið lækni heim til sín á næturnar en Læknavaktin hefur sinnt slíkri þjónustu í 80 ár. Heimilislæknir sem sinnt hefur næturvitjunum um árabil óttast að sparnaður sem af þessu á að hljótast sé lítill sem enginn. Álag á bráðamóttökum í Fossvogi og á barnaspítalanum aukist og sjúkraflutningum fjölgi.


„Og sú þjónusta er töluvert dýrari þegar upp er staðið, rannsóknarkostnaður og flutningskostnaður,“ segir Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir og bætir við að þær hafi verið með lyfjakassa og þannig getað bjargað fólki með lyf, jafnvel hitalækkandi lyf fyrir börn. Einnig hafi þjónustan skapað fólki öryggi.


Bráðamóttökur spítalanna eru þegar undirmannaðar. Þola þær aukið álag?


„Meðaltalstölurnar segja að þetta séu sirka fimm vitjanir á nóttu, og þar af koma tvær til þrjár hvort eð er á bráðamóttökuna. Þannig að viðbótin er kannski ekki svo ýkja mikil,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri bráðamóttöku.


„Við komum svo sannarlega til með að kortleggja þetta, hvort að þetta breyti álaginu á næturnar og hvort við þurfum þá meiri mannskað á nóttunni, og ég geri ráð fyrir því að þessi ákvörðun verði endurmetin ef svo reynist,“ segir Guðlaug


„Sko þetta er lúxusþjónusta og þegar maður skoðar hversu margir eru raunverulega að njóta hennar, og miðað við kostnaðinn, að þá er þarna hagræðingartækifæri,“ segir Elísabet Benediktz, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.