Yfirgefnu börnin í Árósum líklega frá Afganistan

15.12.2019 - 23:13
Erlent · Afganistan · Asía · Danmörk · Flóttamenn · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Austur-Jótlandi - DR
Smábörnin tvö sem fundust ein og yfirgefin við strætisvagnastoppistöð í miðborg Árósa í gær eru að líkindum frá Afganistan. Lars Bisgaard, varðstjóri hjá lögreglunni á Austur-Jótlandi greinir frá þessu í samtali við fréttastofu danska ríkisútvarpsins, DR. Segir hann nokkuð víst að börnin tali dari, sem er afganska afbrigðið af hinu persneska farsi-máli. Um helmingur Afgana talar dari, en hinn helmingurinn pashto.

Upphaflega taldi lögregla að börnin væru frá Austur-Evrópu, en það breyttist þegar liðkast tók um málbeinið hjá eldra barninu, dreng sem talinn er vera um tveggja og hálfs árs gamall. Stúlkan sem var með honum er líklega í kringum eins árs aldurinn. Ekkert er vitað um foreldra barnanna eða aðra aðstandendur en gengið er út frá því að þau séu systkini.

Næsta skref er að útvega túlk sem getur rætt við drenginn. Þá heldur lögregla áfram að fara í gegnum upptökur öryggismyndavéla á svæðinu nálægt þeim stað sem börnin fundust á. Börnin eru nú í umsjá félagsmálayfirvalda og er líðan þeirra eftir atvikum góð, segir Bisgaard. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi