Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfirgefinn farangur verður fjarlægður

Mynd: Wikimedia Commons  / Wikimedia Commons

Yfirgefinn farangur verður fjarlægður

19.05.2017 - 14:30

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir er á faraldsfæti. Hún er stödd á Ítalíu og sendi Víðsjá pistil frá borginni Bologna..

Bakpoki

Klukkan er 12.28 á þriðjudegi – í nýju, stóru viðbyggingunni við lestarstöðina í Bologna á N-Ítalíu, er slangur af fólki. Í þessum hluta byggingarinnar eru brautarpallar 16 til 19, það er talsvert stapp að komast hingað, fyrst þarf að komast fram hjá öllum hinum brautarpöllunum, svo eru endalausir rúllustigar og beygjur. Það er gott að setjast niður, flestir eru með farangur, aðrir fara á barinn og fá sér kaffi, kaupa sér nesti eða tala í símann. Hér eru eiginlega alltaf allir að tala í símann. En það er samt ekki mikill hávaði, salurinn er stór og hljóðin dreifast.

Allt gengur sinn vanagang, eins og lög gera ráð fyrir á stórri lestarstöð í hádeginu – nema, það er ekki víst hvað svarti bakpokinn hefur verið hérna lengi. Kannski er hann löngu kominn, og þó, einhver hefði tekið eftir því, en þarna stendur hann allavega á miðju gólfi, þar sem skömmu áður var gangandi umferð með hlátrasköllum, og öryggisvörður í uppreimuðum skóm hefur á honum gætur. Sá tekur upp símann og hringir eitthvert, og við það taka ýmsir eftir svarta bakpokanum. Sumir taka hljóðlega saman föggur sínar og eiga allt í einu erindi á aðra hæð, í annan hluta salarins, þeir láta samt lítið á því bera. Einhverjir taka upp síma og beina að pokanum – enginn veit hvers vegna. Asíska stúlkan með heyrnartólin, sem hefur fram að þessu æft dans á flísunum, hættir í miðju spori og axlar sín skinn. Samt er ekkert beint panikk í salnum, furðu margir sitja áfram þar sem þeir eru, stara inn að miðju og hugsa: jæja, þetta er þá svona, hér er ég og this is it.

Allt frýs

Enginn virðist enn svara tilkynningu öryggisvarðarins en hann er rólegur, heldur jafnri fjarlægð frá svarta bakpokanum, sem kannski er bara skólataska sem einhver utan-við-sig nemandi skildi eftir – en kannski ekki. Auði radíusinn í kringum bakpokann minnkar eftir því sem nýtt og grunlaust fólk gengur í salinn, sumir strjúkast næstum því við hann, með ökklunum, með barnakerrunum, og það er einkennilegt á að horfa – eins og langdregin sena í bíómynd. En það er ekki bara tilfinning að allt sé eins og sýnt hægt, viðbrögðin í veruleikanum eru hæg, nú er klukkan 12.43 og óútskýrði hluturinn er enn á þeim stað sem hann var skilinn eftir.

Og af því glæpaþættir og bíó gera fólk að rassvasasérsfræðingum er ein aðferð við að róa sig að gaumgæfa staðsetninguna – ef þessi hlutur ætti að valda usla væri hann ekki hafður svona nálægt þessum sveru súlum, eða jú, annars, kannski strategía, þær endurvarpa kannski einhverjum krafti. Ef hluturinn ætti að valda miklum usla ætti hann auðvitað að vera uppi, við aðalinnganginn – eða nei, einmitt hér safnast fólk saman við upplýsingatöfluna og gáir ekki að sér …

Drama

Þegar hér er komið sögu er útséð um að hinn gleymni eigandi komi hlaupandi eftir bakpokanum, sá er löngu stiginn upp í lest sem er farin. Af og til stoppar einhver til þess að spyrja öryggisvörðinn til vegar í rangölum stöðvarinnar, og hann svarar svo mildilega og rólega að það er eiginlega furðulegt.

Þannig er þetta, þótt dramatík í fréttum af hryðjuverkaárásum sé mikil og þekkt – enda þarf að segja frá miklum örlögum, miklum smáatriðum – verður hin meinta ógn furðulega banöl, hversdagsleg, jafnvel hallærisleg, þegar hún blasir við sem mögulegur veruleiki. Sem svartur, þvældur bakpoki í miðjum sal. Hér eru engar stórar tilfinningar, heldur: Nú, þetta er þá bara svona, en asnalegt – og hvað, á maður nú að telja sekúndubrotin?

Tik tik ...

Kannski fer það samt eftir því hver á í hlut. Það er ekki á kláru hversu margir gestanna á lestarstöðinni í Bologna á þessum þriðjudegi vita að hér hefur þegar orðið harmleikur í miðjum hversdagsleik. Harmleikur sem borgin hefur ekki gleymt. Á útvegg við aðalinnganginn, uppi, er nafnalisti á marmaraplötu, á honum eru nöfn allra þeirra sem fórust í hryðjuverkaárásinni sem gerð var á þessa lestarstöð þann 2. ágúst árið 1980. Tímasprengja í yfirgefinni ferðatösku sprakk í fullum biðsal af fólki þar sem almenningur og ferðafólk bjó sig undir sumarfrí og hafði leitað skjóls fyrir hitanum í loftkældum salnum – nöfnin á listanum eru 85 talsins, konur, karlar, börn … Ábyrgð árásarinnar var síðar lýst á hendur nýfasískum hryðjuverkasamtökum, sem neituðu, of langt mál er að fara út í rannsókn málsins hér, en punkturinn er að hryðjuverk í Evrópu eru ekki ný af nálinni, þótt ástæðurnar séu misjafnar og atburðirnir komi í bylgjum.

En þótt Bologna-borg hafi engu gleymt þýðir lítið að hengja sig í söguna alla daga og óttast. Kannski er það viðhorfið sem rólyndi öryggisvörðurinn hefur tamið sér – eða, það getur líka verið að hann viti nú þegar að hættan af svarta bakpokanum sé hverfandi og blóti bara í huganum skólakrökkunum sem merkja ekki töskurnar sínar og gleyma þeim svo hipsum haps út um alla stöð. Hetjudáð er í það minnsta ekki það sem honum er efst í huga, samt stendur hann næst miðju mögulegra atburða, næstur allra.

12.47, lögreglan er komin, tveir rólegir menn með kaskeiti og skammbyssur í slíðri. Þeir lýsa varlega inn í bakpokann með vasaljósi, skanna með málmskanna. Þegar annar lögreglumaðurinn hefur skellt svarta bakpokanum á öxlina og rölt með hann út úr salnum birtist upp úr engu maður í dökkum jakkafötum sem dregur að sér athygli allra. Hann gengur einkennilegum hænuskrefum í gegnum salinn eftir þráðbeinni ímyndaðri línu, sviplaus og stífur, og heldur svo fast í svarta hliðartösku að hnúarnir hvítna. Hann er, ef eitthvað er, grunsamlegri en allir heimsins yfirgefnu bakpokar.

Allt getur gerst

Enginn vill að sagan endurtaki sig, og hún gerir það heldur aldrei alveg, aldrei alveg eins, og aldrei eins og maður spáir. Það er þess vegna sem sérhvert andartak er þannig að brugðið getur til beggja vona. En þá þarf líka að muna að í sérhverju andartaki eru einnig sjö þúsund aðrir möguleikar, og ríflega sex þúsund og níu hundruð þeirra eru bara hinir ágætustu, maður gæti fengið góða hugmynd, maður gæti unnið á skafmiða, fundið ástina, maður gæti hafa lent á stórkostlegri samloku á barnum og uppgötvað heimssögulegt bragðið af ostinum um leið og hann klessist í hárið.

Og svo fer lestin manns af stað.