Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Yfirdýralæknir gagnrýnir tamningaaðferð

26.10.2013 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Danskur tamningakennari kennir tamningaaðferð hér á landi sem yfirdýralæknir telur brjóta gegn lögum um velferð dýra. Kennarinn segir að mistök hafi verið gerð við sýnikennslu á dögunum en segir aðferðina ekki ganga nærri hestunum.

Iben Andersen hefur haldið fjölmörg námskeið hér á landi á undanförnum árum og hefur innleitt meðal annars aðferðir til að temja erfið og spennt hross. Myndir voru teknar á námskeið hjá henni að Gauksmýri nálægt Hvammstanga fyrir hálfum mánuði. Á þeim má sjá þegar hún bindur upp einn fót og bíður þess að hesturinn gefist upp. Aðferðin hefur verið notuð erlendis.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir segir að það sem megi sjá á myndbandinu sé alls ekki ásættanlegt og augljóst að hestinum líði ekki vel. Aðferðin gangi gegn lögum um velferð dýra. 

En þau lög taka hinsvegar ekki gildi fyrr en um áramótin. Sigurborg segir að hesturinn hljóti að fá mikla verki enda hafi þetta staðið yfir í 45 mínútur. Iben Andersen segist miður sín yfir því að sýnikennslan hafi tekið svo langan tíma. Venjulega taki það ekki nema 5-10 mínútur að ná hestum niður. Truflun áhorfenda hafi hinsvegar spillt fyrir. Hún telur aðferðina ekki ganga of nærri hrossunum. Hún hafi ekki meitt hestinn, og aðferðin gangi ekki út á það. Árangurinn sé mikill. 

Sigurborg viðurkennir að árangurinn af aðferðinni sé fljótfenginn en að það sé hægt að ná sama árangri ef menn gefa sér lengri tíma.