Yfir þúsund úr þjóðkirkjunni í Zúistafélagið

08.01.2016 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Zuism á Íslandi
Liðlega þrjú þúsund manns gengu i trúfélagið Zuism á síðasta fjórðungi ársins. Hátt í ellefu hundruð nýrra félaga komu frá þjóðkirkjunni.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman tölur um breytingar á skráningum einstaklinga í þjóðskrá úr einu trú- og/eða lífsskoðunarfélagi í annað á tímabilinu 1. október til ársloka. 

Úr þjóðkirkjunni gengu 2.412 fleiri á tímabilinu en gengu í hana. Í fríkirkjurnar þrjár gengu 10 færri en úr þeim og 3.420 fleiri gengu í önnur trúfélög en úr þeim. Í lífsskoðunarfélagið Siðmennt gengu 246 fleiri en úr því. Þá voru nýskráðir utan félaga 830 færri en gengu í félag eftir að hafa verið utan félaga og í ótilgreint trúfélag voru 414 færri skráðir en fluttust úr þeim flokki.

Vegna mikilla breytinga á skráningu varðandi trúfélagið Zuism tók Þjóðskrá sérstaklega saman tölur varðandi það félag. Þar kemur í ljós að 3.176 gengu í félagið á síðasta fjórðungi nýliðins árs, en 70 gengu úr því. Þeir sem gengu í félagið komu úr ýmsum áttum. Flestir þeirra voru áður utan trúfélaga eða 1.652 og þeir voru líka fjölmennastir í hópi þeirra sem gengu úr félaginu eða 34. 1.053 gengu úr þjóðkirkunni og í félag zúista. Úr fríkirkjum komu 127, hundrað komu úr lífsskoðunarfélögum og 166 komu úr öðrum trúfélögum.

Á heimasíðu zúista segir að félagið sé vettvangur fyrir fólk til að iðka trú sem byggi á trúarbrögðum hinnar fornu þjóðar Súmera og að höfuðmarkmið zúista sé að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram umfram önnur félög. Zúistar endurgreiða félagsmönum aðildargjaldið.  Einnig segir að félagið verði lagt niður um leið og markmiðum þess hefur verið náð. 

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi