Yfir þúsund sagt álit sitt á klukku-tillögum

17.01.2019 - 12:25
Mynd með færslu
Hvenær breytir maður klukku og hvenær breytir maður ekki klukku Mynd: Shutterstock
Yfir þúsund umsagnir hafa borist um klukku-tillögur forsætisráðuneytisins. Sérfræðingur í svefnrannsóknum segir að Íslendingar ættu hiklaust að seinka klukkunni um eina klukkustund. Fjöldi rannsókna hafi sýnt að Íslendingar fari seinna að sofa en aðrir Evrópubúa „sem styður þá ályktun að þorri landsmanna sé með seinkaða líkamsklukku.“

Óhætt er að segja að Íslendingar hafa sterka skoðun á þeim þremur tillögum sem birtar voru á samráðsvef stjórnvalda í byrjun árs.  Yfir þúsund umsagnir hafa borist og sitt sýnist hverjum, að breyta klukku eða breyta ekki klukku, þarna er efinn.

Erla Björnsdóttir,  sérfræðingur í svefnrannsóknum, styður þá tillögu að seinka klukkunni um eina klukkustund.  Í umsögn hennar sem birtist á samráðsgáttinni segir hún að háttatími Íslendinga sé seinni en þekkist annars staðar. Dagurinn byrji þó á sama tíma á virkum dögum vegna vinnu eða skóla. Óhjákvæmilega valdi þetta styttingu nætursvefns.  „Vitað er að stuttur svefn eykur líkur á ýmsum sjúkdómum, s.s. offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum, skerðir framleiðni og hefur neikvæð áhrif á námsárangur og andlega líðan,“ skrifar Erla. 

Jörgen L. Pind, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, tekur undir þetta og segir flest rannsóknarrök í lífeðlisfræði og sálfræði styðja að staðarklukkunni á Íslandi verði breytt. Misræmi staðarklukku og líkamsklukku hafi líklega verst áhrif á skólabörn og ekki síst unglinga í framhaldsskólum en vitað sé að brottfall í framhaldsskólum sé mikið. „ Með því að færa klukkuna aftur um eina klukkustund væri að mínu mati stigið stórt skref til hagsbóta fyrir ungmenni þessa lands.“

Ásdís Helgadóttir, lektor við Háskóla Íslands, vill ekki seinka klukkunni og segir Íslendinga hafa með menningu sinni þegar leiðrétt skekkjuna í klukku og sólargangi. „Ef klukkunni er breytt og venjum haldið óbreytt munum við gera allt 2-3 tímum seinna en aðrar þjóðir,“ skrifar Ásta.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi