Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfir eitt þúsund kólerusmit í Mósambík

02.04.2019 - 20:00
Erlent · Afríka · Malaví · Mósambík · Simbabve
Mynd: EPA-EFE / LUSA
Yfir eitt þúsund kólerusmit hafa verið staðfest í Mósambík. Sjúkdómurinn breiðist ógnarhratt út eftir hörmungar sem eru taldar þær verstu á svæðinu í áratugi.

Idai skall á suðausturströnd Afríku um miðjan mars. Honum fylgdi gríðarleg úrkoma sem olli mannskæðum flóðum í Mósambík, Malaví og Simbabve. Staðfest dauðsföll í löndunum þremur eru nú yfir 800 og óttast er að enn fleiri hafi látist. Flóðin hafa áhrif á milljónir manna og fjölmargir eru enn á flótta. Erfitt er að ná til sumra svæða, fjöldi vega og brúa gjöreyðilagðist í flóðunum og síma- og netsamband er stopult. Matvælaðstoð Sameinuðu þjóðanna kemur nú vistum til afskekktra þorpa.

Ástandið er einna verst í Mósambík og þar breiðist kólera nú ógnarhratt út. Fyrir aðeins fjórum dögum voru tæp 140 smit staðfest en í dag greindi heilbrigðisráðuneytið frá því að smitin séu orðin fleiri en eitt þúsund. Enn sem komið er eitt dauðsfall staðfest vegna kóleru en það skiptir sköpum að smitaðir komist sem fyrst undir læknishendur. Von er á 900 þúsund skömmtum af bóluefni til Mósambík og á morgun á að hefjast viðamikil bólusetningarherferð.