Yfir 750 látin úr ebólu í Austur-Kongó

12.04.2019 - 17:47
epaselect epa04332725 A photograph made available 27 July 2014 shows Liberian health workers in protective gear on the way to bury a woman who died of the Ebola virus from the isolation unit in Foya, Lofa County, Liberia, 02 July 2014. Over 660 people
 Mynd: EPA
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að yfir 750 manns hafi látist í nýjasta ebólufaraldrinum í Austur-Kongó og hátt í tólf hundruð veikst. Starfsfólki hjálparstofnana gengur illa að hefta útbreiðslu veikinnar.

Faraldurinn braust út í ágúst síðastliðnum. Hann er sagður sá skæðasti sem komið hefur upp í Austur-Kongó. Nýjustu tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eru frá 9. apríl. Samkvæmt þeim er 751 látinn í héruðunum Norður-Kivu og Ituri í austurhluta landsins. Hátt í tólf hundruð hafa veikst.

Starfsmenn Rauða krossins á svæðinu segja að faraldurinn færist frekar í aukana heldur en hitt. Að sögn Lækna án landamæra eru viðbrögð umheimsins svo fáleg að ekki er við neitt ráðið.

Á sumum svæðum er fólk svo tortryggið í garð heilbrigðisstarfsfólks að það leitar sér ekki læknishjálpar, hvað þá að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um smitvarnir. Einnig hamla árásir vígasveita hjálparstarfinu. Þar af leiðandi er ekki hægt að bólusetja fólk eða hlúa að þeim sem hafa veikst.

Faraldurinn sem nú geisar er sá tíundi sem komið hefur upp í Austur-Kongó frá árinu 1976. Árið 2014 kom upp ebólufaraldur í ríkjum í Vestur-Afríku. Þá létust yfir tíu þúsund manns í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi