Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Yfir 700 jarðskjálftar síðan á miðnætti

27.08.2014 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Meira en 700 jarðskjálftar hafa orðið á svæðinu frá Bárðarbungu norður að Öskju síðan á miðnætti. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að stór skjálfti í Öskju í nótt tákni ekki endilega að þar sé að fara að gjósa. Virknin er mest norðan Dyngjujökuls og hefur þokast um 1 km til norðurs.

Innskotið undir Dyngjujökli og áleiðis að Öskju er nú talinn vera rúmlega 40 kílómetra langur. Líkanreikningar sem byggjast á GPS mælingum á aflögun lands, benda til þess að rúmlega 20 milljón rúmmetrar af kviku hafi flætt inn í innskotið undanfarin sólarhring. Vísbendingar eru einnig um að berggangurinn (innskotið) hafi valdið verulegum spennubreytingum á stóru svæði, meðal annars til norðurs. Það getur, að mati vísindamanna, skýrt aukna skjálftavirkni í Öskju. Skjálfti upp á  4,5 varð rétt austan við Öskju um hálftvö í nótt, sá stærsti sem þar hefur mælst í 22 ár.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hefur fylgst með þróun mála og rætt var við hann í hádegisfréttum í dag. 

„Í meginatriðum er það þannig að það er ekkert að draga úr. Það eru 700 skjálftar frá miðnætti. Virknin þokast aðeins norður en mjög hægt. Og svo eru stórir skjálftar í Bárðarbungunni sem voru í nótt, sem falla að því að þar sé að lækka þrýstingur meðan berggangurinn er að leita til norðurs, “ segir Magnús.

„Það vakti síðan nokkra athygli að það kom nokkuð stór skjálfti 4,5 austan við Öskju. Það bendir nú allt til að það sé svona svörun Öskju, það er bara spennan í berginu sem verður við það að þessi gangur er að troðast þarna fyrir sunnan. Hann veldur því að það verða brestir en hann táknar ekki það að Askja sé að fara að gjósa eða neitt slíkt.“

„Þetta eru mjög athyglisverðir atburðir og þetta eru stóratburðir á jarðfræðilegan mælikvarða þó að ekkert sé eldgosið og vonandi helst það nú reyndar þannig. Við erum að horfa á hvernig landið gliðnar í miðju landsins þar sem að er mjög mikil svona söguleg eldvirkni og bara mikil virkni yfir höfuð. Þarna hefur verið til þess að gera kyrrt, ekki orðið svona hryna sjálfsagt ekki svona í hundrað ár kannski ekki 200 ár.“

„Hver er gliðnunin orðin?“

„Það er nú kannski ekki alveg auðvelt að segja, en gangurinn er kannski 2ja, 3ja metra þykkur þannig að gliðnunin er eitthvað nálægt því. Þetta þýðir ekki að það séu orðið þremur metrum lengra til Egilsstaða frá Reykjavík heldur er landið að togast í sundur og þjappast þá saman til hliðanna. En þarna á þessu svæði, niðri í jarðskorpunni þá er þetta búið að ýtast svona í sundur.“