Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Yfir 600 dáin úr beinbrunasótt á Filippseyjum

epa05152762 A yellow fever mosquito (Aedes Aegypti) is presented at a press conference from the Ministry of Science in Wiesbaden, Germany, 10 February 2016. The type is considered the main carrier of the Zika virus, which is currently spreading primarily
 Mynd: EPA - DPA
Stjörnvöld á Filippseyjum lýstu í gær yfir neyðarástandi vegna beinbrunasóttarfaraldurs sem gaus upp í landinu í ársbyrjun og orðið hefur yfir 600 manns að aldurtila. Alls skráðu filippeysk heilbrigðisyfirvöld 146.062 tilfelli beinbrunasóttar frá því fyrstu tilfellin greindust í janúar fram til 20. júlí, og ekkert bendir til þess að faraldurinn sé í rénun. Þetta eru nær tvöfalt fleiri tilfelli en greindust á sama tímabili í fyrra.

Alls skráðu filippeysk heilbrigðisyfirvöld 146.062 tilfelli beinbrunasóttar frá því fyrstu tilfellin greindust í janúar fram til 20. júlí, og ekkert bendir til þess að faraldurinn sé í rénun. Þetta eru nær tvöfalt fleiri tilfelli en greindust á sama tímabili í fyrra. 622 hafa dáið úr sóttinni það sem af er ári.

Neyðarástandsyfirlýsingin gerir héraðs- og sveitarstjórnum auðveldara að nálgast framlög úr sameiginlegum neyðarsjóðum ríkisins til að fjármagna kröftugri og skilvirkari viðbrögð gegn sóttinni.

Skæður hitabeltis- og veirusjúkdómur

Beinbrunasótt er vírussjúkdómur sem berst með moskítóflugum og er landlægur í hitabeltislöndum heimsins. Algengustu einkenni eru liðverkir, ógleði, uppköst og útbrot. Í alvarlegustu tilfellum veldur beinbrunasótt öndunarörðugleikum, innvortis blæðingum og alvarlegri líffærabilun.

Ekki hefur tekist að þróa áreiðanlegt bóluefni gegn þessum skæða sjúkdómi. Eina bóluefnið á markaði er leyft í 20 ríkjum, en hvergi fyrir börn undir 9 ára aldri. Engu að síður voru fjölmörg börn undir 9 ára aldri á meðal þeirra 700.000 sem filippeysk yfirvöld bólusettu með þessu umdeilda efni 2016 og 2017. Það var ekki fyrr en tugir barna úr þessum hópi dóu, sem heilbrigðisyfirvöld þar í landi bönnuðu bóluefnið algjörlega.

Bannið tók gildi í febrúar á þessu ári. Rætt hefur verið um að leyfa það aftur, eftir að þessi skæði faraldur komst á skrið, en ekkert hefur orðið af því. Annars vegar vegna þess að Alþjóða heilbrigðisstofnunin ræður eindregið frá því að nota bóluefnið sem vopn í baráttu við faraldur á borð við þennan, og hins vegar vegna þess að það nýtist ekki þeim sem viðkvæmust eru fyrir, sem eru börn á aldrinum 5 - 9 ára.

Engin meðferð til

Engin sértæk meðferð er heldur í boði við beinbrunasótt. Megináhersla er lögð á að tryggja að sjúklingar fái nóg af vökva, um leið og reynt er að lina þjáningar þeirra með hita- og verkjastillandi lyfjum.

Faraldur í Malasíu, Víetnam og Bangladess

Beinbrunasótt hefur færst í aukana í fleiri Austur-Asíuríkjum á þessu ári, samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Nær tvöfalt fleiri tilfelli höfðu greinst í Malasíu í júnílok en á sama tíma í fyrra, eða ríflega 62.400. 93 dóu þar úr beinbrunasótt á fyrstu sex mánuðum ársins en 53 á fyrri helmingi 2018.

Á þessu sama tímabili greindust ríflega þrisvar sinnum fleiri beinbrunasóttartilfelli í Víetnam á þessu ári en því síðasta, eða rúmlega 81.000 á móti ríflega 26.000. Staðfest dauðsföll þar voru þó mun færri en í Malasíu og Filippseyjum, eða fjögur á þessum sex mánuðum.

Þá geisar nú í Bangladess skæðasti beinbrunasóttarfaraldur sem sögur fara af þar í landi. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV