Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfir 550 látin í mestu hamförum í manna minnum

22.03.2019 - 03:32
Erlent · Hamfarir · Afríka · Malaví · Mósambík · Simbabve · Veður
Mynd með færslu
Þar sem áður mátti ganga þurrum fótum um langan veg er nú vatn svo langt sem augað eygir Mynd:
Staðfest dauðsföll af völdum fellibylsins Idai, sem gekk yfir Simbabve, Malaví og Mósambík í síðustu viku, eru nú yfir 550 talsins. Eru þetta einhverjar verstu veðurtengdu hamfarir sem dunið hafa á sunnanverðri Afríku um árabil. Úrhellisrigning fylgdi ofsaveðrinu og orsakaði gríðarmikil flóð sem enn eru lítið farin að sjatna, viku eftir að ósköpin dundu yfir. Áætlað er að um 15.000 manns bíði einn björgunar við lífshættulegar aðstæður.

3.000 ferkílómetrar undir vatni

Mest eru flóðin í Mósambík, þar sem um 3.000 ferkílómetrar lands eru á kafi í allt að sex metra djúpu vatni. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna segir flóðin hafa valdið gríðarmiklu tjóni, fært þúsundir heimila á kaf og sópað burtu vegum og brúm.

Staðfest dauðsföll í Mósambík eru nú 242, 56 fórust í Malaví svo vitað sé og nýjustu upplýsingar herma að 259 hafi farist í Simbabve, flest þegar stífla við uppistöðulón gaf sig í vatnavöxtunum með þeim afleiðingum að flóðbylgja skall á nokkrum þorpum fyrir neðan hana.

Fellibylurinn er sagður einhver mesti hamfarabylur sem dunið hefur á sunnanverðri Afríku frá upphafi mælinga. Meðalvindhraði mældist yfir 54 metrar á sekúndu þegar mest var, hviður fóru allt upp í 78 metra á sekúndu og úrkoman var ógurleg.  

Hátt í þrjár milljónir líða fyrir hamfarirnar

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna áætla að hátt í þrjár milljónir manna líði eða muni líða fyrir hamfarirnar. Í Mósambík hafa um 600.000 manns nú þegar mátt þola margvíslegar afleiðingar veðurofsans, svo sem að missa heimili sín, búsmala og aðrar eigur, auk þess sem þúsundir hafa slasast.

Fulltrúar Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna áætla að enn fleiri, eða allt að 1,7 milljón Mósambíka, muni þurfa á aðstoð að halda vegna hamfaranna og afleiðinga þeirra áður en yfir lýkur. Þetta á líka við um hundruð þúsunda íbúa Malaví og Simbabve. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV