
Yfir 500 hafa dáið úr ebólu síðan í ágúst
Bólusetning hefur bjargað þúsundum
Ráðherrann, Oly Ilunga Kalenga, segir að tekist hafi að bólusetja ríflega 76.000 manns þar sem faraldurinn geisar og bjarga þannig þúsundum mannslífa, í fyrstu árangursríku bólusetningarherferðinni gegn þessum skæða sjúkdómi. Segist hann sannfærður um að með bólusetningunum hafi tekist að koma í veg fyrir að faraldurinn brytist út í stærstu borgunum á þessu svæði og hindra að hann teygði sig til nágrannaríkjanna.
Næst-mannskæðasti ebólufaraldur sögunnar
Faraldurinn braust út í Kivu-héraði í norðausturhluta landsins, sem liggur að Úganda og Rúanda. Yfirstandandi faraldur er tíundi ebólufaraldurinn sem upp hefur komið í Kongó síðan 1976 og sá mannskæðasti sem geisað hefur þar í landi. Einungis faraldurinn í Vestur-Afríku 2013 - 2016 var mannskæðari. Þá dóu ríflega 11.000 manns í Líberíu, Sierra Leone og Gíneu úr ebólu áður en yfir lauk og yfir 17.000 til viðbótar veiktust.