Yfir 5 milljónir barna svelta heilu hungri

19.09.2018 - 07:03
epa07030110 A Yemeni woman carries her ill child as they wait to complete the procedures for traveling abroad via a UN-sponsored humanitarian medical air bridge, in Sana'a, Yemen, 18 September 2018. According to reports, the United Nations is working
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðlegu hjálparsamtökin Barnaheill áætla að þeim börnum sem eiga á hættu að svelta heilu hungri í Jemen hafi fjölgað um allt að milljón síðustu vikur og mánuði og séu nú ríflega fimm milljónir. Tugir og jafnvel hundruð þúsunda jemenskra barna hafa dáið úr hungri og sjúkdómum síðan stríðið byrjaði.

Viðvarandi stríðsátök í landinu torvelda aðgengi að og framleiðslu á mat, hækka matarverð og hafa auk þess kippt fótunum undan gjaldmiðli landsins. Til að bæta gráu ofan á svart hafa harðir bardagar geisað í og við hafnarborgina Hudaydha að undanförnu. Bróðurparturinn af allri neyðaraðstoð til almennings á yfirráðasvæðum uppreisnarmanna fer um höfnina þar í borg.

Átök stjórnarhersins annars vegar og uppreisnarmanna Húta og bandamanna þeirra hins vegar brutust út í Jemen 2014 og hörðnuðu til muna 2015, þegar Sádi-Arabar og hernaðarbandalag nokkurra ríkja til viðbótar blönduðu sér í stríðsreksturinn. Stríðið hefur geisað linnulítið allar götur síðan og kostað tugi eða hundruð þúsunda mannslífa.

Mannfall næsta örugglega mjög vanmetið

Erfitt hefur reynst að fylgjast með mannfalli í þessari skelfilegu óöld. Staðfest er að fjöldi fallinna er ekki undir tíu þúsundum og minnst tveir af hverjum þremur þeirra almennir borgarar. Þessi tala er hins vegar frá árinu 2016 og þótti þá þegar grunsamlega lág.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og fleiri sem fylgjast með framvindu stríðsins í Jemen eru á einu máli um að margfalt fleiri hafi fallið og að mikill meirihluti hinna látnu sé úr röðum almennings. Í frétt bandaríska blaðsins Washington Post frá 3. ágúst segir að sjálfstæða stríðsrannsóknastofnunin ACLED meti það sem svo, að minnst 50.000 hafi týnt lífinu í blóðsúthellingunum sjálfum.

Börn deyja í tugþúsunda tali

Barnaheill benda á að mun fleiri hafi látist úr hungri og sjúkdómum, sem rekja megi beint til stríðsástandsins. Í þeim hópi séu börn í miklum meirihluta. Barnaheill tilkynntu fyrr í þessum mánuði að starfsfólk þeirra hefði meðhöndlað nær 400.000 alvarlega vannærð börn undir fimm ára aldri það sem af er þessu ári.

Talið er að hátt í 50.000 börn hafi látist í Jemen á síðasta ári úr vannæringu og smitsjúkdómum ýmsum, og áætla Barnaheill að allt að 36.000 til viðbótar deyi í ár af sömu sökum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi