Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfir 300 snjóflóðagrindur bæst við landslagið

30.10.2018 - 09:40
Yfir þrjú hundruð snjóflóðagrindur hafa bæst við landslagið í Skutulsfirði en á síðustu dögum var lokið við að flytja snjóflóðagrindurnar upp í hlíðar fjallsins Kubba með þyrlu. Verkstjórinn segist vera kominn með mislangar lappir eftir tveggja sumra vinnu í hlíðinni. 

Tvö sumur að bora festingar

Undanfarna daga hefur verið unnið að því að flytja síðustu snjóflóðagrindurnar upp í hlíðar Kubba ofan Holtahverfis á Ísafirði, en alls eru 332 grindur í hlíðum fjallsins til að koma í veg fyrir að snjóflóð fari af stað. „Það hefur gengið mjög vel, tekið tvö sumur að bora, sem er mjög gott, eftir því sem ég veit,“ segir Ágúst Ólafsson, yfirverkstjóri ÍAV í Kubba.

Með mislangar lappir eftir tveggja sumra vinnu

Alls er búið að bora 1.360 holur fyrir festingar grindanna í hundrað til 350 metra hæð. „Þetta er mjög bratt, það hefur verið erfitt að eiga við þetta, við erum komnir með hálfgerðar geitalappir, allavega styttri á manni önnur löppin,“ segir Ágúst. „Þetta var býsna erfitt verk, en við vorum í stakk búnir fyrir það, með góð tól og góðan mat og allt það. Og erum komnir fantagott form á sama tíma,“ segir Simas Treinys, verkamaður í Kubba.

Hópur verkamanna frá Litháen

Átta til átján manna hópur verkamanna frá Litháen hefur komið að verkinu síðustu tvö sumur. Verkamennirnir eru ráðnir í gegnum starfsmannaleigu sem Simas segir hafa opnað leið sína í verkið, sem hafi verið spennandi og fært honum góða félaga. Næst komi hann þó á eigin vegum. „Ég vil tvímælalaust vinna millilialaust fyrir fyrirtækið sem ég er að vinna fyrir nú,“ segir Simas. Simast segist hafa passað upp á kaup sín og kjör, sem sé mjög mikilvægt, og segist vera sáttur við tekjur sínar og aðbúnað. „Í samanburði við það sem ég gæti fengið annarsstaðar er ég mjög ánægður.

Deilt um útfærslu snjóflóðavarnanna

Deilt var um útfærslu snjóflóðavarnanna og þá hefur þjónustuvegurinn upp Hafrafellsháls verið sérstaklega umdeildur. Ekki er þó þörf á því að halda veginum við fyrir grindurnar og í verklýsingu segir að eyða eigi ummerkjum um veginn að verkinu loknu. „Viðhaldið [á grindunum] á ekki að vera neitt, eða hverfandi, næstu fimmtíu árin,“ segir Ágúst.

Fjallað var um snjóflóðavarnirnar í fréttum haustið 2017: