Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 30 féllu í árásum á gullnámur

31.12.2018 - 03:39
Erlent · Afríka · Tjad
Mynd með færslu
 Mynd:
Minnst þrjátíu gullgrafarar og námumenn létu lífið og yfir 200 særðust í norðurhluta Tjad þegar vígamenn frá Líbíu gerðu árás á gullnámur og gullleitarsvæðin sem þeir unnu í. Tjadneska mannréttindavaktin greinir frá þessu. Sannkallað gullæði hefur gripið um sig í Kouri Bougoudi-héraði í norðurhluta Tjads og þar er rekinn fjöldi gullnáma, stórra og smárra, auk þess sem fjöldi einyrkja leitar þar gulls upp á eigin spýtur.

Samkvæmt heimildum mannréttindasamtakanna réðust vígamennirnir fyrst til atlögu á fimmtudag og beindu spjótum sínum að öllum „Ekki-Aröbum“ á svæðinu. Hermt er að búið hafi verið að hrekja alla námustarfsmenn frá svæðinu á laugardag, en það hefur ekki fengist staðfest. AFP hefur eftir ónefndum heimildarmanni að bardagar hafi brotist út á svæðinu, en sá vill ekki veita neinar frekari upplýsingar um umfang þeirra eða hverjir berjast við hverja.

Margoft hefur komið til blóðugra átaka á þessu svæði síðan gull fannst þar í miklum mæli árið 2012. Fólk hefur streymt til Kouri Bougoudi frá öllum héruðum Tjad og erlendis frá líka, þar á meðal frá nágrannalandinu Líbíu. Tjadneska mannréttindavaktin sakar stjórnvöld í landinu um að ætla sér að yfirtaka svæðið og beita fyrir sig stríðsmönnum af arabískum uppruna.

Ríkisstjórnin freistar þess að koma böndum á hverjir fá að leita og grafa eftir gulli á svæðinu og hefur úthlutað námuleyfum  til nokkurra stórra námufyrirtækja sem hyggja á stórfelldan námugröft á svæðinu. Sendu stjórnvöld hersveitir á vettvang í ágúst í því skyni að „hreinsa burt“ alla ólöglega námu- og gullleitarstarfsemi og hindra tjadneska uppreisnarmenn sem halda til í Líbíu í því að koma yfir landamærin í gullleit. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV