Mynd: EPA

Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.
Netárásin sem hófst á föstudaginn nær nú til meira en 150 ríkja og hefur haft áhrif á yfir 200 þúsund tölvur og tölvukerfi, segir Rob Wainwright, yfirmaður Europol, Evrópulögreglunnar. Árásin veldur því að tölvugögn dulkóðast og krafist er lausnargjalds fyrir að veita notendum aðgang á ný. Wainwright sagði í viðtali við bresku ITV sjónvarpsstöðina í morgun að ógnin væri enn til staðar.
Svo virðist sem árásarinnar hafi fyrst orðið vart í Bretlandi. Þar hafa opinberar heilbrigðisstofnanir orðið fyrir barðinu á árásinni, sem leiddi til þess að víða þurfti að fresta aðgerðum og önnur starfsemi raskaðist. Ástæðan er talin vera að víða í heilbrigðiskerfinu eru notaðar tölvur með Microsoft stýrikerfi sem ekki er lengur uppfært með nýjustu öryggisviðbótum. Microsoft vissi af þessum galla í nýrri stýrikerfum í mars og gaf þá út uppfærslu þar sem komið er í veg fyrir gallann. Stjórnendur NHS, breska heilbrigðiskerfisins sögðu þó að sjúkraskrár væru öruggar.
Víða um heim hafa stofnanir og fyrirtæki orðið fyrir barðinu á þessum vírus, þar á meðal innanríkisráðuneyti Rússlands, háskólar í Kína og fjölmörg stórfyrirtæki í Evrópu.