Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Yfir 200 þúsund gestir í Jarðböðin

25.01.2017 - 14:11
Mynd með færslu
Jarðböðin að vetri til þegar aðsókn er mun minni en yfir hásumarið  Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar við Jarðböðin í Mývatnssveit til að mæta sífellt aukinni aðsókn. Ríflega þriðjungi fleiri gestir böðuðu sig þar á síðasta ári en árið á undan.

202 þúsund gestir sóttu Jarðböðin heim árið 2016. Gestirnir voru 150 þúsund árið á undan og því er þetta um 35% aukning milli ára. Langflestir gestir eru yfir sumartímann og ágústmánuður þar stærstur.

Telur að árið 2017 verði síst minna

„Stærstu dagar í ágúst eru dagar þar sem eru að koma um 1.500 gestir. Stærsti dagurinn er 1.850 gestir,“ segir Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna. Það er rólegt núna á þessum árstíma, en miðað við bókanir segir Guðmundur að hann búist við fleiri gestum í ár en á síðasta ári. Þó stökkið verði þó varla eins mikið milli ára. „Við reiknum kannski með aukningu upp á 10 til 15 prósent.“

Stækka veitingasal og auka rými í búningsklefum

Þjónustubyggingarnar við Jarðböðin voru stækkaðar fyrir fáum árum. En þessi aukna aðsókn kallar á frekari framkvæmdir. „Við viljum semsagt geta tekið betur á móti gestunum okkar, það sé aðeins rýmra um þá. Við ætlum ekki endilega að fjölga klefum, eða skápum í klefum, heldur að hafa meira pláss fyrir hvern og einn gest. Stækka aðeins veitingasal og -sölu og geta sinnt öllum betur,“ segir Guðmundur.

Nauðsynlegt að gera breytingar á baðlóninu

Hann segir ekki fullljóst hvort byggt verður við núverandi hús eða nýtt byggt við hliðina á því sem fyrir er. Þá segir hann nauðsynlegt að stækka eða gera breytingar á baðlóninu. Ekki síst til að geta stýrt aðsókninni betur. „Kannski hólfum við það aðeins betur, þannig að við náum að stýra bæði hita og fjölda á hverjum tíma. En þetta skýrist vonandi allt núna á næstu mánuðum. Við erum á fullu með hönnunarteyminu okkar.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV