Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Yfir 20 létu lífið í Nairóbí

17.01.2019 - 01:47
Erlent · Afríka · Hryðjuverk · Kenía
Mynd með færslu
 Mynd:
Að minnsta kosti 21 féll í árás sómalskra vígamanna á hótel í Nairóbí í Keníu í gær. Breska ríkisútvarpið BBC hefur þetta eftir stjórnvöldum í Keníu. Nærri 30 eru særðir og Rauði krossinn í Keníu segir 19 enn saknað eftir árásina. 

Hundruð urðu að flýja hótelið þegar árásin var gerð í gær. Umsátrinu lauk ekki fyrr en í morgun, um 19 tímum eftir að árásin hófst. Að sögn forsetans Uhuru Kenyatta láu fimm vígamenn í valnum. Hann sagði í sjónvarpsávarpi í dag að hver sá sem hafi átt þátt í að fjármagna, skipuleggja og framkvæma þetta hryllilega voðaverk verði eltur uppi. Talið er að tveir hafi verið handteknir í dag í tengslum við árásina.

Hryðjuverkasamtökin al-Shabab, sem eru með aðsetur í Sómalíu, lýstu yfir ábyrgð á árásinni í gær. Samkvæmt yfirlýsingu þeirra var hún andsvar við ákvörðun Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.