Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Yfir 1100 skráningar í Ungfrú Ísland

15.06.2013 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Verkefnastýra Ungfrú Ísland segir mikinn áhuga vera á Íslandi fyrir fegurðarsamkeppnum. Yfir 1100 stúlkur hafa skráð sig í Fegurðarsamkeppnina Ungfrú Ísland, sem haldin verður í september.

Íris Telma Jónsdóttir, sem sér um verkefnastjórnun og kynningarmál keppninnar segir áhugann á keppninni í ár enga undantekningu: „Það er náttúrulega alltaf áhugi fyrir keppninni, það klikkar ekki. Keppnin var ekki í fyrra og svo það er mikill áhugi og mikið af stelpum sem höfðu samband í fyrra og voru að velta fyrir sér afhverju keppnin væri ekki. Svo hjálpar allt þetta umtal sem er búið að vera.“

Íris Telma segir vel ganga að fara yfir umsóknirnar, en það sé talsverð vinna: „Ég er sem sagt búin að fara yfir hátt í 800 umsóknir. Ég geri þetta jafnóðum og skrái niður hjá mér þær sem ég þarf að skoða betur. Það er náttúrulega vissar reglur sem við tileinkum okkur frá keppnunum úti og ég þarf að athuga hvort stelpurnar standist þær kröfur til að finna sem besta fulltrúa fyrir okkar hönd út.“

Stelpurnar þurfa að uppfylla ýmsar kröfur: „Þær þurfa náttúrulega að vera á aldrinum 18-24 ára, ógiftar og barnlausar. Það eru reglur sem við tileinkum okkur frá keppnunum úti. Það er gríðarleg vinna að keppa, þetta sýst ekki bara um að vera sæt með fallegt bros. Þær þurfa að hafa góðan persónuleika, hugsa vel um sig og vera pínu klárar í kollinum af því þetta er gríðarleg vinna þegar það kemur að því að fara út og keppa fyrir Íslands hönd.“ segir Íris Telma.