Yfir 1.000 hreindýr óveidd

16.08.2016 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hreindýraveiði fer rólega af stað, en innan við 300 dýr af 1.300 dýra kvóta hafa verið felld, þegar rétt um mánuður lifir veiðitímans. Veiði á törfum hófst 15. júlí, en á hreinkúm þann 1. september.

Að sögn Jóhanns Guttorms Gunnarssonar, starfsmanns Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum, er þetta ívið minna en undanfarin ár. Hann segir að allt þurfi að ganga upp með tilliti til veðurs ef takast á að veiða kvótann í ár. Jóhann segir þetta hafa sloppið til undanfarin ár, en heldur færri dýr hafi verið felld nú, en á sama tíma undanfarin ár.

Veður hefur verið rysjótt á veiðislóð undanfarna daga og margur veiðimaðurinn setið í svarta þoku lungann úr deginum. Virkir leiðsögumenn eru rétt um 40 talsins, svo ljóst er að veiðimenn þurfa að bretta upp ermar. Um 130 dýr verða veidd í nóvember, svo enn á eftir að ná ríflega 800 dýrum áður en veiði lýkur um miðjan september. Á annan tug veiðimanna er við veiðar í dag.

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi