
Yfir 100 látnir í flóðum í Suður Asíu
Nepalski herinn hefur staðið í ströngu við að rýma þorp og bæi sem flóðin hafa fært í kaf. Verst er ástandið í vesturhluta landsins. Talsmaður innanríkisráðuneytisins í Nepal segir í samtali við tíðindamann BBC að vitað sé að 12 sé enn saknað og óttast að mun fleiri hafi farist.
22 hafa dáið í Bihar-ríki í Indlandi og þar hafa flóðin bitnað á allt að 1,5 milljón manna með beinum hætti. Fjölmennt björgunarlið vinnur að því hörðum höndum að koma fjölda fólks í öruggt skjól. Í teræktarhéraðinu Assam, í Norðaustur-Indlandi, hefur annar eins fjöldi orðið fyrir barðinu á flóðunum. Þar hafa 16 farist og um 100.000 manns hafast við í nær 500 neyðarbúðum.
Feikilegt flæmi ræktarlands, verndarsvæði villidýra og fjöldi vega hafa horfið undir vatn og mörg stórfljót hafa eða eru við að flæða yfir bakka sína. Í Bangladess er 1,5 milljón manna á hrakhólum vegna flóðanna og minnst 11 hafa látist. Í Pakistan er vitað um 22 fórnarlömb flóða og aurskriðna, flest í Khyber Pakhtunkhwa og Punjab-héruðunum í þessari viku. Í byrjun mánaðarins fórust minnst 58 í flóðum í norðanverðu Pakistan og Indlandi.