Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Yfir 100 látnir í flóðum í Suður Asíu

29.07.2016 - 07:08
epa04365958 A man takes his family to a safer place as their house is submerged by flood waters in the flood affected Morigaon district of Assam state, India, 24 August 2014. According to media reports, nearly 50 people have died in India's flood-hit
 Mynd: EPA
Yfir 100 manns hafa týnt lífi í flóðum og aurskriðum í Suður-Asíu síðustu daga, þar sem miklar monsúnrigninar ganga nú yfir í mörgum löndum. Nokkur hundruð þúsund manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna úrhellisins og flóðanna sem því fylgir. Fjölda fólks hefur verið bjargað úr flóðunum og komið fyrir í neyðarskýlum. Flestir hafa látist í Nepal, þar sem minnst 75 hafa látist í flóðum og aurskriðum það sem af er þessari viku.

Nepalski herinn hefur staðið í ströngu við að rýma þorp og bæi sem flóðin hafa fært í kaf. Verst er ástandið í vesturhluta landsins. Talsmaður innanríkisráðuneytisins í Nepal segir í samtali við tíðindamann BBC að vitað sé að 12 sé enn saknað og óttast að mun fleiri hafi farist.

22 hafa dáið í Bihar-ríki í Indlandi og þar hafa flóðin bitnað á allt að 1,5 milljón manna með beinum hætti. Fjölmennt björgunarlið vinnur að því hörðum höndum að koma fjölda fólks í öruggt skjól. Í teræktarhéraðinu Assam, í Norðaustur-Indlandi, hefur annar eins fjöldi orðið fyrir barðinu á flóðunum. Þar hafa 16 farist og um 100.000 manns hafast við í nær 500 neyðarbúðum.

Feikilegt flæmi ræktarlands, verndarsvæði villidýra og fjöldi vega hafa horfið undir vatn og mörg stórfljót hafa eða eru við að flæða yfir bakka sína. Í Bangladess er 1,5 milljón manna á hrakhólum vegna flóðanna og minnst 11 hafa látist. Í Pakistan er vitað um 22 fórnarlömb flóða og aurskriðna, flest í Khyber Pakhtunkhwa og Punjab-héruðunum í þessari viku. Í byrjun mánaðarins fórust minnst 58 í flóðum í norðanverðu Pakistan og Indlandi.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV