Yfir 100 enn saknað eftir ferjuslys

Kivu-vatn í Kongó, borgin Goma í bakgrunni
Ferjan var á leið frá borginni Goma við Kivu-vatn þegar slysið varð Mynd: S. Grabow - Wikimedia Commons
Yfir eitt hundrað manns er enn saknað eftir að ferju hvolfdi á Kivu-vatni í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó á mánudag. Hátt á annað hundrað manns voru um borð í ferjunni þegar henni hvolfdi. 35 var bjargað lifandi úr vatninu og 13 lík hafa fundist, en 114 manns sem staðfest er að voru um borð hafa enn ekki fundist.

Felix Tshisekedi, forseti Kongó, hefur lýst yfir þjóðarsorg í landinu í dag vegna slyssins. Þá hefur hann ákveðið að binda það í lög, að farþegar á bátum sem sigla um Kivu-vatn skuli nota björgunarvesti, en drukknanir munu vera tíðar á vatninu, sem er eitt af stærstu stöðuvötnum Afríku. Ferjan var á leið frá borginni Goma á norðurströnd Kivuvatns til bæjarins Kalehe í vestri, þegar henni hvolfdi að kvöldi mánudags. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi