Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.
Miðstjórn kínverska Kommúnistaflokksins samþykkti á flokksþingi sínu að festa hugmyndafræði núverandi Kínaforseta, Xi Jinpings, í stjórnarskrá landsins. Með því er honum skipaður sami sess í sögu flokks og þjóðar og sjálfum Maó formanni. Xi hefur stöðugt verið að auka og treysta völd sín á þeim fimm árum sem liðin eru frá því hann tók við flokksformennsku. Við lok flokksþingsins var samþykkt einróma að binda hugmyndafræði hans í stjórnarskrána og gengur hún nú undir heitinu „Xi Jinping-hugsun.“
Sérfræðingur BBC í málefnum Kína segir að með því að festa „Xi Jinping-hugsun“ í stefnuskrá flokksins og þar með stjórnarskrá landsins hafi mögulegum keppinautum formannsins verið gert ómögulegt að gagnrýna hugmyndafræði hans án þess að eiga á hættu að verða skilgreindir sem ógn við Kommúnistaflokkinn og yfirráð hans í landinu.
Hugmyndafræði fleiri formanna hefur verið fest í stefnuskrá flokksins en Xi er sá eini, fyrir utan Mao Zedong, sem hefur fengið stimpilinn „hugsun“ hengdan þar við. Sá stimpill mun tróna efstur í virðingastiga hinnar ýmsu formanna-hugmyndafræði þar eystra. Einnig eru þeir Xi, Deng Xiaoping og Maó þeir einu, hverra nöfn eru tengd órofa böndum við hugmyndafræði höfunda sinna í stefnuskránni.