Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

WOW hættir starfsemi

28.03.2019 - 08:21
Mynd með færslu
 Mynd:
WOW air hefur hætt starfsemi. Tilkynning þessa efnis birtist á vef félagsins upp úr klukkan átta. „WOW air hefur hætt starfsemi. Öllum flugferðum á vegum WOW air hefur verið aflýst,“ segir á vef flugfélagsins. Sex flugvélar WOW Air sem áttu að koma úr Ameríkuflugi í nótt lögðu aldrei upp frá flugvöllum vestanhafs.

Sjö ferðir til Evrópu voru áætlaðar í morgun en þeim var öllum aflýst. Tvær flugvélar WOW air munu vera á Keflavíkurflugvelli. Þær hefðu aldrei annað nema litlum hluta flugsins hefði verið vilji eða möguleiki til að fara þær ferðir. Niðurfelling alls flugs í nótt og morgun er örþrifaráð. Flest bendir til, og heimildir fréttastofu herma, að leigusalar sem eiga flugvélarnar hafi kyrrsett hluta af flugflota WOW air. Miklar viðræður hafa staðið milli stjórnenda WOW air, lánardrottna sem hugðust taka flugfélagið yfir og leigusala. Reynt var að fá fjárfesta að borðinu. Þeir vildu fá fullvissu um að hægt yrði að halda flugrekstri fyrirtækisins áfram áður en þeir settu fé í reksturinn. 

Yfirlýsingu WOW air um að starfsemi flugfélagsins hafi verið hætt fylgja leiðbeiningar til farþega. Þar er þeim bent á að kanna möguleika á flugi hjá öðrum flugfélögum. „Athugið að sum flugfélög kunna við þessar aðstæður að bjóða farþegum aðstoð í formi björgunarfargjalda. Upplýsingar um þau félög verða birtar um leið og þær liggja fyrir.“

Hér má lesa yfirlýsingu WOW air í heild sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.