WOW ætlar að taka allt að tólf milljarða lán

15.08.2018 - 06:20
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Íslenska flugfélagið WOW air hyggst sækja sér á bilinu sex til tólf milljarða króna í aukið fjármagn til að treysta starfsemi fyrirtækisins með útgáfu skuldabréfs til evrópskra fjárfesta. Þetta kemur fram í drögum að fjárfestakynningu sem fréttastofa hefur undir höndum.

Samið hefur verið við norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securities um að hafa umsjón með skuldabréfaútboðinu og á það að klárast á allra næstu vikum. 

Pareto er einn helsti ráðgjafi við skuldabréfaútboð á Norðurlöndum og hefur síðustu misseri meðal annars haft umsjón með slíkri fjármögnun fyrir Icelandair og Norwegian air. Í drögum að fjárfestingakynningu Pareto vegna útboðsins segir að skuldabréfaútgáfan sé hugsuð sem brúarfjármögnun fram að áformuðu frumútboði WOW air innan næstu 18 mánaða. Þá hyggst flugfélagið sækja sér nýtt hlutafé og yrði í kjölfarið skráð á markað en í dag er Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, eini hluthafi félagsins.

Í fjárfestakynningunni kemur fram að rekstr­artap WOW nam um 45 millj­ón­um banda­ríkja­dala, jafnvirði um fimm milljarða ís­lenskra króna, á tíma­bilinu júlí 2017 til júní 2018. Þar kemur líka fram að eiginfjárhlutfall  WOW air var aðeins um 4,5 prósent í lok júní borið saman við tæp 11 prósent í árslok 2017. 

Þá kemur fram að hlutdeild WOW á flugmarkaðnum hér á Íslandi sé um 37 prósent og fyrirtækið telji líklegt að það verði stærsti aðilinn á markaðnum árið 2019.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi