
Fréttin hefur verið uppfærð
Þegar og ef þetta samkomulag klárast verður Skúli einn af hluthöfum WOW og hluthafahópur WOW því fjölbreyttari en áður. Skúli myndi þá eignast hlut í flugfélaginu eins og aðrir kröfuhafar. Samkvæmt frétt sem birtist á vef mbl.is í kvöld var einhugur um þetta meðal kröfuhafar og hreyfði enginn mótmælum.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu myndi þetta þýða að þegar og ef kaupandi finnst fyrir WOW air myndu samningaviðræður fara í gegnum fulltrúa hluthafanna en ekki endilega Skúla eins verið hefur að undanförnu. Samningaviðræður WOW og Indigo Partners eru taldar hafa strandað á einmitt þessum þætti flugfélagsins og því ekki ólíklegt að skilaboðum verði komið áleiðis til bandaríska fjárfestingafélagsins að tekist hafi að greiða úr þessari flækju.
WOW þurfti í dag að aflýsa tveimur ferðum til og frá Gatwick-flugvelli í Lundúnum og ferð félagsins frá Dyflinni seinkaði umtalsvert. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, sagði í skriflegu svari til fréttastofu að allir ferðir WOW yrðu á áætlun á morgun nema ferð félagsins til Las Palmas sem myndi seinka um fjóran og hálfan tíma.
Talsverð óvissa ríkir um framtíð WOW en bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa gefið skýr svör um að að ekki komi til greina að ríkið komi með beinum hætti inn í rekstur WOW. Milla Ósk Magnúsdóttir, fréttamaður, var í beinni útsendingu í tíu fréttum Sjónvarps og hún sagði að hvorki Skúli né Svanhvít hefðu gefið kost á viðtali. Svanhvít hefði beðið um vinnufrið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, sagði í viðtali að stjórnvöld fylgdust grannt með gangi mála en enginn sérstök tímamörk hefðu verið sett.