Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Whittaker fyrsta konan sem leikur Doctor Who

Mynd með færslu
 Mynd: BBC - Youtube

Whittaker fyrsta konan sem leikur Doctor Who

16.07.2017 - 16:02

Höfundar

Enska leikkonan Jodie Whittaker verður þrettándi leikarinn og fyrsta konan sem túlkar Doctor Who í samnefndum þáttum sem breska ríkissjónvarpið, BBC hefur framleitt í meira en hálfa öld.

Þættirnir um Doctor Who hafa löngum notið mikilla vinsælda í Bretlandi. Alls hafa verið framleiddir um 900 þættir á þeim 53 árum sem liðin eru frá sýningu fyrstu þáttaraðarinnar. Þættirnir voru framleiddir ár eftir ár frá 1963 til 1989 þegar framleiðsla þeirra féll niður. Hún hófst á ný árið 2005 og stendur enn yfir.

Átta leikarar léku Doctor Who fyrstu 26 árin og var sú aðferð höfð við leikaraskipti að Doktorinn tók hamskiptum og birtist sem nýr maður, sem þurfti þá að uppgötva eiginleika sína og persónuleika á ný. Fjórir leikarar hafa tekið hlutverkið að sér frá 2005 en tólfti Doctor Who, Peter Capaldi, tilkynnti fyrr á þessu ári að hann myndi hætta um næstu jól.

Whittaker mun því taka við keflinu í næsta jólaþætti Doctor Who. „Það er meira en heiður að leika Doctor Who,“ sagði Whittaker í viðtali við BBC. „Ég er ótrúlega spennt að hefja þetta mikilfenglega ferðalag.“ Jodie Whittaker er 35 ára gömul og hefur leikið í fjölda kvikmynda og þáttaraða, en er líklega best þekkt fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Broadchurch.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Milljónir segja skilið við Doctor Who

Menningarefni

Milljónir horfðu á Dr. Who

Tækni og vísindi

Google heiðrar Doctor Who