Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Wes Anderson og snjáldurmúsamúmían

Mynd: Kunsthistorisches Museum / Kunsthistorisches Museum

Wes Anderson og snjáldurmúsamúmían

17.11.2018 - 07:44

Höfundar

Nýjasta verkefni leikstjórans Wes Andersons hefur vakið mikla athygli. Sýningin „Snjáldurmúsamúmían og aðrar gersemar”, sem nú stendur yfir í Listasögusafni Vínarborgar, var sett saman af Anderson og eiginkonu hans, Juman Malouf, úr safneigninni sem telur um fjóra milljón muni frá fimm þúsund ára tímabili.

Leikstjórinn Wes Anderssson er þekktur fyrir mjög afgerandi stíl í kvikmyndum sínum, til að mynda The Grand Hotel Budapest, The Royal Tenenbaums, The Life Aquatic og The Darjeeling Limited. Hver einasta þessara mynda skartar leikmynd með úthugsaða og þaulnákvæma fagurfræði sem skilar sér út í hvert einasta smáatriði allra ramma. Óhætt er að segja að leikmyndin í kvikmyndum hans sé jafn stór þáttur af sjálfu heildarverkinu og handritið.

Þessi háttur Andersons hefur sætt gagnrýni og myndir hans stundum verið sagðar lítið annað en áferðarfagurt yfirborðið. Sitt sýnist hverjum um þá gagnrýni en eitt er víst; sama hversu þunn sagan getur virst, þá er erfitt að láta sér leiðast yfir myndunum, hafi maður á annað borð ánægju af úthugsuðum leikmyndum og litagleði, jafnt í formi sem fígúrum.

Í sínu nýjasta verkefni tekst Anderson þó ekki á við söguþráð og persónur, í það minnsta ekki í hefðbundnum skilningi, heldur muni úr safnaeign listasögusafnsins í Vínarborg. „Snjáldurmúsa-múmían og aðrar gersemar” er titill sýningar sem opnaði  í liðinni viku sem Anderson var fenginn til að hanna og stýra í samstarfi við eiginkonu sína, rithöfundinn og hönnuðinn Juman Malouf. Sýningin er sú þriðja í röð sýninga þar sem listasögusafnið býður listamönnum að setja saman sýningu úr safnaeigninni sem inniheldur yfir fjóra milljón muni frá fimm þúsund ára tímabili, úr heimi myndlistar, náttúruminja og alls kyns náttúruundra.

Mynd með færslu
 Mynd: Kunsthistorisches Museum
Listasögusafnið í Vín

Anderson og Malouf völdu rúmlega 400 muni úr eigninni og meðal þeirra eru gersemar frá tímum Faróa í Egyptalandi, grískar og rómverskar minjar, málverk meistara spænsku og hollensku gullaldarinnar, alls kyns furðulegar náttúruminjar úr söfnum safnara frá endurreisn til upplýsingar, herklæðnaður, silkikjólar, uppstoppuð dýr, skartgripir og margt margt fleira. Sérstakan gaum gefur parið líka niðurgröfnum geymslum safnsins en stór hluti munanna hefur ekki komið fyrir sjónir almennings í fleiri áratugi.

Sýningin er sett upp í átta herbergjum, eitt þeirra er fullt af allskyns grænum hlutum úr óvæntum áttum, annað er yfirfullt frá gólfi og upp í loft, af málverkum af konungsbornum börnum á meðan enn eitt sýnir samansafn af uppstoppuðum dýrum úr öllum heimsins hornum og frá hinum ýmsu tímabilum sögunnar. Titill sýningarinnar er einmitt fengin úr þessu síðastnefnda herbergi, en í miðju þess liggur múmía af snjáldurmús frá Egyptalandi frá því á fjórðu öld fyrir Krist.

Mynd með færslu
 Mynd: Kunsthistorisches Museum

Af myndum úr sölum sýningarinnar að dæma er nokkuð auðvelt að sjá glitta í þá fagurfræði sem áhorfendur kvikmynda Andersons eiga að venjast; sterkir litir, óvæntar litasamsetningar og mikil symmetría. En þrátt fyrir útpælda áferð, þráðbeint skipulag og mikla symmetríu á yfirborðinu, sem virðist af myndum að dæma gefa sýningunni ægifagurt yfirbragð, þá lýtur uppsetning munanna engri fræðilegri reglu, hún stjórnast eingöngu af áhuga og forvitni sýningarstjóranna.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kunsthistorisches Museum

Að ganga inn í sýninguna er eins og að ganga inn í sextándu aldar „wunderkammer“, eða furðugripasafn eins og það hefur verið nefnt á íslensku, frá þeim tíma söfnunar þegar landamæri upplýsingarinnar höfðu ekki enn verið sett. Munir eru forvitnilegir sama hvort þeir flokkast sem myndlist, föt eða bein. Allar skilgreiningar listfræðinga fjúka hér út í veður og vind og það er einmitt það sem gerir þessa sýningu svo spennandi; áhorfandinn veit ekkert hverju hann á von á.

Það er því ekki bara áferðin sem minnir á kvikmyndir Andersons heldur líka óvissufaktorinn, það eru óvæntar uppákomur í öllum  hornum. Að setja Inúítadúkku í glerskáp við hlið handgerðra korta af sleðaförum í nágrenni Austurrísku keisarahallarinnar, er meðal þeirra óvæntu samsetninga sem gætu fengið áhorfandann til að  hugsa munina, og þar með allt sem umlykur þá, upp á nýtt. Merking hlutanna verður allt önnur og þar liggur einhver galdur.