Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vucic harðorður í garð Evrópusambandsins

17.03.2020 - 06:23
epa06743459 Serbian President Aleksandar Vucic arrives at an informal European Union (EU) summit with Western Balkans countries at the National Palace of Culture in Sofia, Bulgaria, 17 May 2018. EU leaders will discuss European future for Western Balkans,
Aleksandar Vucic, forseti Serbíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðleg samstaða, eða samstaða Evrópuríkja er einungis hugarburður sem er til á pappírum. Þetta sagði Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, í ræðustól í gær. Hann gagnrýndi Evrópusambandið harðlega fyrir að ætla að halda öllum búnaði til heilbrigðisþjónustu innan sambandsins. Serbía á ekki aðild að ESB. 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í yfirlýsingu í gær að það væri mikilvægt að vernda heilbrigðisstarfsfólkið sem er í framlínu baráttunnar gegn COVID-19. Umfangsmiklar aðgerðir, á borð við tillögu um 30 daga bann við ónauðsynlegum ferðum, voru kynntar í yfirlýsingunni. Eins verða aðildarríki að gefa grænt ljós á útflutning læknabúnaðar út fyrir ESB. 

Vegna þessa sagði Vucic að Serbía ætli að leita á náðir Kína, að sögn danska ríkisútvarpsins DR. Hingað til hafa 55 greinst með nýju kórónaveiruna í Serbíu, og enginn er látinn af völdum hennar. Stjórnvöld hafa gripið til harðra aðgerða, að sögn til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Hermenn gæta landamæranna og gatna höfuðborgarinnar Belgrad, og frá gærdeginum gæta þeir einnig sjúkrahúsa. Landamærin eru lokuð öllum nema diplómötum, fólki með lögheimili í Serbíu og Kínverjum. Vucic vonast til þess að fá sem flesta Kínverja til landsins til aðstoðar. Allir sem koma til landsins verða að fara í fjórtán daga sóttkví, og verða undir lögreglueftirliti. Þeir sem rjúfa sóttkvína geta átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi.