Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

VR teikni atvinnurekendur upp sem vonda fólkið

18.12.2018 - 08:20
Mynd: RÚV / RÚV
Auglýsing VR, þar sem Georg Bjarnfreðarson dregur salernisgjald, reiðhjólagjald og matargjald af launum starfsmanns og býðst til að hýsa hann í lager verslunar fer fyrir brjóstið á Samtökum verslunar og þjónustu. Margrét Sanders, formaður SVÞ, segir hinar auglýsingar félagsins góðar en að í þessari tilteknu auglýsingu fari húmorinn yfir strikið. Margrét var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2. 

Eitthvað myndi heyrast ef SVÞ sakaði starfsfólk um stuld

Margrét segir að í auglýsingunni séu atvinnurekendur teiknaðir upp sem vonda fólkið. „Að atvinnurekendur ætli sér að fara illa fólk, að þeim þyki ekki vænt um fólkið sitt, að atvinnurekendur vilji græða sem mest og henda fólkinu út í hafsauga, þarna fara menn of langt og það er það sem okkar fólk er bara mjög reitt yfir.“

Margrét segir að það myndi eitthvað heyrast í VR ef Samtök verslunar og þjónustu færu að tala um að starfsmenn væru að stela úr verslunum. „Við erum að tala um glæpastarfsemi.“

Hún segir gagnrýni samtakanna einungis lúta að fyrstu auglýsingunni, sem sjá má hér að ofan, í kjölfar hennar hafi fylgt góðar auglýsingar sem minni tildæmis á mikilvægi veikindaréttar. „Þeir keyrðu langmest á þessari auglýsingu, svo eru þeir snjallir núna, ég á von á því að það sé tilviljun, nú eru að koma auglýsingar sem eru allt annars eðlis en þeir byrja á þessum skúrki sem er hreinlega í brotastarfsemi. Það sem við höfum verið að benda á varðandi brotastarfsemina er að atvinnurekendur hafa haft sig mest í frammi með þá atvinnurekendur sem eru að brjóta á fólki, borga svart, greiða ekki samkvæmt kjarasamningum og eru langt undir töxtum vegna þess að það skekkir líka starfsemi. Ef að það eru einhverjir sem hafa haft sig í frammi, unnið með stjórnvöldum, bent á og gengið hart fram þá eru það atvinnurekendur.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV