Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

VR lánar félagsmönnum sem misstu starf hjá WOW

29.03.2019 - 16:10
Innlent · Uppsagnir · VR · Wow air
Mynd með færslu
 Mynd:
VR ætlar að lána félagsmönnum sínum sem störfuðu hjá WOW air jafnvirði þeirra launa sem þeir hefðu fengið um mánaðamótin. Starfsmennirnir eru um 250 talsins. Miðað verður við hámark Ábyrgðarsjóðs launa.

„Þetta verður með þeim hætti að við munum lána félagsmönnum okkar fyrir ígildi þeirra krafna sem þau fá annars út úr Ábyrgðarsjóði launa sem getur tekið allt að sex til átta mánuði að sækja og þá mun Ábyrgðarsjóður launa í rauninni greiða okkur til baka þannig að fólkið verði ekki tekjulaust núna um mánaðamótin,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Stjórn VR tók þessa ákvörðun í gær til að brúa bilið þar til starfsfólkið fær greiddar atvinnuleysisbætur. Þær greiðslur berast líklega um næstu mánaðamót. 

1.100 starfsmenn WOW air misstu vinnuna í gær þegar fyrirtækið varð gjaldþrota. Margir þeirra fá ekki greidd laun nú um mánaðamótin. Ábyrgðarsjóður launa tryggir laun fyrir skatt að upphæð 633.000 krónur sem eru um 370.000 krónur í útborguð laun og miðar VR einnig við að sú upphæð sé hámarkið. Fólk sem var með lægri laun fær greiðslur í samræmi við það. 

VR hélt fund með starfsmönnum WOW á Nordica hóteli í dag um það hvernig eigi að fylla út ýmis gögn vegna gjaldþrotsins. „Þetta er flókið ferli og óaðgengilegt þannig að það skiptir máli fyrir stéttarfélögin að vanda vel til verka og fara yfir þetta allt saman með fólki. Hér er her manns að taka á móti gögnum og skrá þannig að við getum farið með þau áfram og sótt réttindi okkar félagsmanna gagnvart þrotabúinu.“