Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Votlendi — mokað ofan í skurði

30.04.2018 - 22:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fljótlega hefst kerfisbundin endurheimt votlendis á vegum nýstofnaðs Votlendissjóðs, sem kynntur var á Bessastöðum síðdegis. Stjórnvöld hafa jafnframt lagt Landgræðslunni til tólf milljónir króna í rannsóknir á votlendi og beinar aðgerðir.

Langstærstur hluti koltvísýringslosunar á Íslandi stafar af framræslu votlendis, eða 70%. Á Bessastöðum er byrjað að vinna í þessu. Þar hefur verið mokað ofan í nokkra skurði og því verður haldið áfram. Hver hektari skiptir máli, því að hver hektari losar 20 tonn af koltvísýringi á ári. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er verndari sjóðsins en að honum standa Landgræðslan og ýmis fyrirtæki. Sjóðurinn starfar með stofnunum og félagasamtökum, þar á meðal Landbúnaðarháskólann, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun. 

„Við ætlum að byrja í Fjarðabyggð og höfum samstarf við sveitarfélagið; tökum allar jarðir sem að sveitarfélagið á og er tilbúið að endurheimta. Síðan munum við ræða við landeigendur og samfélagið og fá alla í lið með okkur,“ segir Eyþór Eðvarðsson, formaður stjórnar Votlendissjóðs.

Mynd með færslu
Á Bessastöðum í dag. Mynd: RÚV

Talið er að 34 þúsund kílómetrar af skurðum hafi verið grafnir hér á landi til framræsingar, sem raskað hafi um 4.200 ferkílómetrum lands, og að innan við 15 prósent þess lands sé nú nýtt til jarðræktar. Afgangurinn losar um fjórar milljónir tonna af koltvísýringi. Stofnfé sjóðsins er 13 milljónir króna og hægt verður að leggja fé í hann og fá árangurinn skráðan í loftslagsbókhald. 

„Þetta er stærsti þáttur Íslands í gróðurhúsalofttegundum og það verður ekkert talað um árangur í loftslagsmálum fyrr en við tökum votlendið,“ segir Eyþór. 

Stjórnvöld ætla að leggja fram 12 milljónir króna til nokkurs konar loftslagssamnings sem umhverfisráðherra og Landgræðslustjóri skrifuðu undir í dag. Fénu verður varið í rannsóknir á votlendi og beinar aðgerðir til endurheimtar þess. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir að ávinningur við endurheimt votlendis sé ekki einungis fólginn í því að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. „Það er líka endurheimt á líffræðilegri fjölbreytni; fuglalífið, gróðurinn, smádýralífið. Og síðan eru votlendi mjög mikilvæg til þess að tempra og stjórna vatnsflæði þegar miklar rigningar og flóð verða,“ segir umhverfisráðherra.   

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV