Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Vorum í sömu helvítis fötunum mánuðum saman“

Mynd:  / 

„Vorum í sömu helvítis fötunum mánuðum saman“

12.01.2019 - 10:30

Höfundar

„Að vera 15 ára, eiga sjálfan sig og ekkert annað. Ekki hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut. Í þá daga var maður ekkert að spá í deginum eftir,“ segir Friðrik Álfur Mánason um uppvaxtarár sín sem hann varði að stórum hluta á Hlemmi.

Friðrik Álfur er einn af viðmælendum í öðrum þætt af Paradísarheimt sem er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld. Hann hefur verið kallaður ýmsum nöfnum, svarti álfurinn, Frikki pönk, Píratinn, öskukallinn og helvítis innflytjandinn. Hann kom til Íslands 14 ára gamall með móður sinni frá Belgísku Kongó, og var tekið með kostum og kynjum af Íslendingum, en í þá daga á níunda áratugnum var engin mathöll á Hlemmi heldur einungis strætóstoppistöð og helsta miðstöð vandræðaunglinga og pönksenunnar.

Friðrik hefur verið í framboði fyrir Pírata, og telur sjálfan sig fulltrúa bótaþega, fólksins á götunni og þeirra sem minna mega sín. En fyrst og fremst er það pönkið sem hann aðhyllist. „Yfirvald, þú ert ekkert að segja mér hvað ég á að gera,“ segir Friðrik Álfur. „Áður fyrr var það svoleiðis, nú hlusta ég smá og met hvort það hefur rétt fyrir sér eða ekki,“ segir Friðrik sem vinnur nú sem safnvörður í Pönksafninu í Bankastræti 0. Hann telur pönkið hafa breytt heiminum til frambúðar, alveg frá listsköpun yfir í hegðun fólks.

Mynd með færslu
 Mynd:
Friðrik sýnir Jóni Ársæli og myndatökumanni þvottekta gat í klofi buxna sinna.

„Núna ferðu út í búð og kaupir rifnar buxur dýrum dómum. Þetta er eitthvað sem pönkararnir voru frægir fyrir, að vera í einhverjum tötrum, og við vorum fordæmdir fyrir, fengum ekki að fara inn á kaffihús, bara út af útliti.“ Nú á dögum valsi fólk hins vegar í hermannaklossum og sértilbúnum rifnum fötum inn á veitingahús eins og ekkert sé. „Ekki eins og við, við vorum í sömu helvítis fötunum mánuðum saman, auðvitað kemur þá gat í fötin okkar. Fólk heldur að við höfum verið að gera þessi göt, nei þau koma bara. Eins og þetta, þetta er ekki eitthvað sem maður býr til,“ segir Friðrik og bendir á gat í buxum sínum. 

Hægt er að sjá brot úr viðtalinu við Friðrik Álf Mánason í spilaranum hér að ofan. Annar þáttur þriðju seríu Paradísarheimtar er á dagskrá RÚV sunnudagskvöldið klukkan 20:35 en hægt er að horfa á þann fyrsta í Spilaranum.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Henni fannst ég myndarlegur“

Menningarefni

„Ég hef ekki einu sinni læk!“

Mannlíf

„Þegar ég geri þetta fannst mér engin leið út“

Mannlíf

Mjög harður heimur þó að við séum á Íslandi