Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Voru viðbúin verri fréttum um ferðamannafjölda

29.01.2019 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir að búast hefði mátt við meiri fækkun ferðamanna en farþegaspá Isavia, sem kynnt var í morgun, gerir ráð fyrir. Samkvæmt henni fækkar farþegum um Keflavíkurflugvöll um tæp níu prósent. „Þessi fækkun er að langmestum hluta fækkun skiptifarþega, það er um 2,4 prósent ferðamanna til landsins. Ég hélt að fækkunin yrði meiri. þetta er auðvitað spá. Ef hún rætist finnst mér þetta betri frétt en við gátum búið okkur undir,“ segir Þórdís.

Þórdís ræddi farþegaspána í kvöldfréttum RÚV. Hún sagði verra að komum ferðamanna til landsins utan háannatímatíma fækki. Þó sé þörf á meiri og dýpri gögnum, svo sem um hverjir komi ekki og hverjum fjölgi. 

„Allar breytingar hafa áhrif á þjóðarbúið,“ segir Þórdís. „Við höfum séð að gengi krónunnar hefur breyst, hún hefur veikst. Það sem skiptir líka máli og ég reyni að nýta hvert tækifæri til að segja er að hausatalning, fjöldi ferðamanna sem koma hingað til lands, er alls ekki það sem skiptir mestu máli. Auðvitað skiptir það máli, auðvitað viljum við ekki sjá mjög miklar sveiflur, við vildum ekki sjá mikla fækkun. Ef þetta rætist er það ekki mikil fækkun.“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að farþegum flugfélagsins fækki ekki. Þvert á móti geri þeir ráð fyrir tíu prósenta vexti. Því sé samdrátturinn í flutningum hjá öðrum flugfélögum. „Við erum með okkar áætlun í gangi og vinnum eftir henni. Og við sögðum okkar hluthöfum frá því í byrjun desember, hvað við værum að vinna með inn á næsta ár, og það er í kringum 10% vöxt. Það er grunnáætlun okkar og það er enn sú forsenda sem við erum að vinna með inn á árið. “

Þannig að þessi spá, gangi hún eftir, þá mun hún ekki hafa nein áhrif á ykkur?

„Nei, við erum að halda áfram í hóflegum vexti þannig að önnur félög eru bara að minnka svona mikið þannig að það hefur þessi áhrif sem Isavia talaði um.“

Bogi segir að Icelandair ætli að fjölga starfsfólki í sumar vegna fyrirsjáanlegrar aukningar í fjölda flugfarþega hjá fyrirtækinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV