Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Voru með stóla og borð á ísjakanum

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarga þurfti fjórum bandarískum ferðamönnum við Fjallsárlón eftir hádegi í dag - þar sem þeir höfðu komið sér fyrir með stóla og borð á ísjaka í fjöruborðinu - en jakann rak hins vegar frá landi. Fjallsárlón er rétt vestan við Jökulsárlón.

Páll Sigurður Vignisson, meðlimur í Björgunarfélagi Hornafjarðar, og starfsmaður við Jökulsárslón, var sendur við annan mann, til að  koma ferðalöngunum í land. „Þarna var fólk sem hafði ákveðið að snæða matinn sinn á litlum ísjaka í fjöruborðinu. Svo kom vindur, ýtti jakanum frá landi og þau komust ekki neitt. Sátu bara í sínum stólum,“ segir Páll.

Fólkið var rólegt, segir Páll, þegar hann og félagi hans Þröstur Þór Ágústsson, komu á staðinn og björguðu því í land. Einn félagi fólksins var í landi. „Þau hefðu getað verið í hættu, og svo er þetta náttúrlega ísjaki sem við vitum aldrei hvað gerir, hvort hann veltir sér einhverntímann eða hvenær, maður hefur enga hugmynd um það.“