Vont netsamband háir eina nemanda Mjóafjarðar

31.12.2018 - 09:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Mæðgur í Mjóafirði þurftu að hugsa í lausnum þegar öll önnur börn fluttu úr firðinum og kennarinn líka. Netsambandið er svo lélegt að ekki er hægt að nota fjarkennslubúnað fyrir eina nemanda bæjarins.

Kennslustund er að hefjast í Mjóafirði og mæðgurnar Erna Ólöf Óladóttir og Jóhanna Björg Sævarsdóttir eru þar í aðalhlutverkum. Hin börnin fjögur börn fluttu frá staðnum á einu bretti sumarið 2017 og kennarinn líka. „Við erum nú yfirleitt frekar á undan áætlun og það gengur nokkuð vel svona miðað við hvernig hlutirnir eru. Það er oft á kvöldin eða þegar ég er komin heim þá fer ég og opna stærðfræðibókina og reynir að lesa stærðfræðiformúlurnar sem krakkarnir eru með og ég gúgla það nú líka stundum hvernig ég á að fara að þessu. Svo er ég svo heppin að ég get hringt í dæturnar. Ein þeirra er nú verkfræðingur þannig að ég hringi mjög oft í hana,“ segir Erna Ólöf Óladóttir, leiðbeinandi og móðir Jóhönnu.

Náminu er stýrt úr Nesskóla í Neskaupstað og Jóhanna fer þangað reglulega. Tilvalið hefði verið að nota fjarfundabúnað til fjarkennslu en vandamálið er að Mjóifjörður er tengdur með hægu og bilanagjörnu örbylgjuloftneti. Þetta veldur líka truflunum þegar þarf að taka próf eða leysa verkefni í gegnum netið. „Fjarskiptin okkar þau eru alveg í molum hreinlega því það koma heilu dagarnir þar sem við höfum ekki einu sinni fastlínuna okkar í lagi,“ segir Erna Ólöf.

„Það þarf að koma með ljósleiðara og almennilegt netsamband. Svo að þetta virki allt saman og þannig að það verði kannski fjölmennara hérna kannski,“ segir Jóhanna.

„Já, okkur yrði bjargað með ljósleiðara eða ekkert svolítið bjargað, við þurfum ljósleiðara ég ætla að segja þetta svo sterkt,“ segir Erna Ólöf.

Stjórnvöld ætla að leggja ljósleiðarann sem hefði líklega verið kominn í gagnið, hefði ekki verið fyrir ágreining við landeiganda í Seyðisfirði um línuleiðina. Þangað til verða þær mæðgur án myndsambands við skólastofu í Neskaupstað, en verklegt nám verður oftast að leysa á staðnum.

„Það fer bara fram heima og íþróttirnar á hestbaki og við að smala og textílmennt í stofunni hjá ömmu,“ segir Jóhanna.

„Heimilisfræðin hún fer náttúrulega bara fram heima. Hún fær að malla eitthvað í potti eða baka eitthvað og svo þarf náttúrulega að ryksuga og þrífa upp eftir köttinn þegar hann er búinn að vera mjög slæmur,“ segir Erna.

Mamma græðir sem sagt mjög mikið á mér sem nemanda að láta mig gera hússtörfin,“ segir Jóhanna.

Horfa á fréttatíma

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi