Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonin sem sprettur upp úr eyðileggingu

Mynd:  / 

Vonin sem sprettur upp úr eyðileggingu

19.02.2019 - 15:04

Höfundar

Sýningin Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout í Listasafni Íslands verðlaunar þolinmóða gesti. „Ég skammaðist mín smá því mér fannst ég ekki tengja við hana, vegna þess að mér fannst ég ekki vita nóg,“ segir Kristína Aðalsteinsdóttir. „Eftir því sem maður kafar dýpra þá finnur maður að það er allt í lagi.“ 

Á sýningunni Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout eru verk fimmtán listamanna sýnd sem öll hverfast með einum eða öðrum hætti í kringum höfuðborg Líbanons, Beirút.

Rætt var um sýninguna í Lestarklefanum, umræðuþætti um listir og menningu. Þar á meðal gesta var Kristína Aðalsteinsdóttir, starfsmaður Berg Contemporary gallerís. Hún var hrifin af sýningunni en segir hana krefjast þess að gefinn sé góður tími til að melta hana. „Það tekur tíma að fara í gegnum hana svo maður átti sig á henni. Ég skammaðist mín smá því mér fannst ég ekki tengja við hana, vegna þess að mér fannst ég ekki vita nóg. Eftir því sem maður kafar dýpra þá finnur maður að það er allt í lagi.“ 

Á sýningunni má sjá verk eftir listamennina Mouniru Al Solh, Moniru Al Qadiri, Ziad Antar, Ali Cherri, Ahmad Ghossein, Joönu Hadjithomas og Khalil Joreige, Lamiu Joreige, Mazen Kerbaj, Stéphanie Saadé, Lucien Samaha, Helle Siljeholm, Suha Traboulsi, Raed Yassin og Akram Zaatari.

Kristína segir að verk Alis Cherri og Moniru Al Qadiri standi einkum upp úr. Í vídeóverki Alis Cherri setur listamaðurinn safnmuni á frönskum söfnum í nýtt samhengi. „Hann veltir fram spurningunni: hvað segja þessir hlutir okkur þegar þeir eru ekki í þessu safnasamhengi, hverjir hafa umboð til að segja sögur í okkar samfélagi, hverjar eru sögurnar? Ég held að þetta sé meginspurning þessarar sýningar,“ segir Kristína.

Mynd með færslu
Úr verki Moniru Al Qadiri, Behind the Sun.

Verk Moniru Al Qadiri heitir Behind the Sun. Í verkinu styðst Qadiri við myndefni frá Persaflóastríðinu af olíueldum í Kúveit en það er að einhverju leyti endurgerð á heimildarmynd Werners Herzog, Lessons in Darkness. „Þarna undirstrikast líka það sem sýningin snýst um að mínu mati; sem er eyðilegging, en von sem sprettur upp úr eyðileggingu.“

Sýningin er norræn og hefur áður verið sýnd í Oslo Kunstforening í Noregi og í Ystads konstmuseum í Svíþjóð. „Skandinavía er svo ungt menningarsamfélag og við erum eins og kornabörn þegar við erum að bera okkur saman við 5.000 ára gamlan kúltúr,“ segir Borgar Magnason tónlistarmaður sem var einnig á meðal viðmælenda í Lestarklefanum. „Þegar við erum að monta okkur af mínímalismanum þá er það eitthvað sem þeir voru að gera, og löngu búnir að mastera, fyrir 4.000 árum.“

Sýningin Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout í Listasafni Íslands stendur til 31. mars í Listasafni Íslands. Lestarklefann í heild má sjá í spilara RÚV, en í þættinum var einnig fjallað um hljómsveitina Bagdad Brothers og danssýninguna Um hvað syngjum við.

Tengdar fréttir

Dans

Skóf af bílnum með tilheyrandi danshreyfingum

Tónlist

Lestarklefinn – frá Beirút til Bagdad

Kvikmyndir

„Maður bæði hlær að henni og með henni“

Myndlist

Læknar á sloppum í lifandi málverkum