Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Vongóður eftir fund um makríldeilu

22.12.2010 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu hyggst beita sér fyrir lausn makríldeilu Íslands og sambandsins. Þetta segir sendiherra Íslands í Brussel sem átti fund með framkvæmdastjóranum í dag. Viðhorf hans gefi skýra vísbendingu um aukinn skilning Evrópusambandsins á sjónarmiðum Íslendinga í deilunni.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið einhliða að makrílkvóti næsta árs verði 147 þúsund tonn, eftir að upp úr samningaviðræðum við Evrópusambandið slitnaði.


Maria Damanaki, framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu, hefur sagt að í undirbúningi sé löndunarbann á makríl frá íslenskum skipum innan sambandsins.


Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel, óskaði eftir fundi með framkvæmdastjóranum í kjölfarið til að kynna sjónarmið Íslands, og fór sá fundur fram í dag. Stefán segir fundinn hafa verið afar jákvæðan og framkvæmdastjórinn ætli að beita sér fyrir lausn deilunnar. Hann segist telja að þetta gefi skýra vísbendingu um að Evrópusambandið sé fyrir sitt leyti tilbúið að skoða breyttar kringumstæður sem Íslendingar hafi mjög haldið á lofti, þ.e.a.s. að göngumynstur makríls hafi breyst verulega. Þá skipti miklu máli hversu mjög makríllinn í íslensku lögsögunni sé þyngri en sá sem hafi verið þar áður. Ekki sé hægt að horfa framhjá því í þeirri stöðu sem nú sé uppi og það verði að taka tillit til þessara sjónarmiða í framhaldi þessara viðræðna.


Stefán segir of snemmt fyrir Íslendinga að fagna sigri í deilunni, ekki hafi verið um eiginlegar samningaviðræður að ræða. Honum hafi hins vegar þótt Damanaki hlusta vel á rök Íslanda og ekki gert ágreining úr þeim sjónarmiðum sem hann hafi sett fram. Stefán segir að í framhaldinu voni hann að Evrópusambandið sé tilbúið til þess að sýna meiri sveigjanleika en ekki beri að fagna of snemma.