Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vond staða barna án kennslu í eigin móðurmáli

24.10.2018 - 19:21
Börn með annað móðurmál en íslensku eru í mestri hættu á að flosna upp úr námi því hluta hópsins gengur verr að ná góðum tökum á íslensku. Tvítyngiskennari segir mikilvægt að þessi hópur fái kennslu í sínu móðurmáli og aukna aðstoð á eigin móðurmáli en til þess verði að virkja foreldra.

Margrét Pálsdóttir sér um sérstaka kennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku í Egilsstaðaskóla. Hún lauk námi með rannsókn á frásagnarhæfni barna og niðurstaðan kom á óvart. Nemendur sem fluttust mjög ungir til landsins eða fæddust hér stóðu verr að vígi. „Því þeir eru ekki sterkir í móðurmáli sínu. En þau sem flytjast til landsins kannski á milli 9 og 11 ára eru þá orðin frekar sterk í móðurmáli sínu og eiga auðveldara með að læra íslensku. Sem er svolítið áhugavert því að maður myndi halda að barn sem hefur fæðst hér og er búið að alast upp í íslensku umhverfi, leikskóla og skóla, að því myndi ganga betur í íslensku en það virðist ekki vera,“ segir Margrét.

Sem sagt, góður grunnur í móðurmáli er um leið grunnur fyrir annað nám, ekki síst til að læra tungumál í nýju landi. Margrét segir mikilvægt að börnin fái ekki bara sérkennslu heldur líka sérstaka aðstoð í tímum og að allir kennarar tileinki sér aðferðir tvítyngiskennslu með áherslu á orðaforða. „Þessi hópur þyrfti að fá mun meiri kennslu á sínu móðurmáli. Þá kannski ekki bara í skólanum heldur líka miklu meiri stuðning heima fyrir. Og við getum eflt það með betri foreldrasamskiptum og samstarfi,“ segir Margrét. Til dæmis mætti hvetja foreldra til að lesa meira fyrir börnin á móðurmálinu.

Við spurðum Lilju Alfreðsdóttur, mennta og menningarmálaráðherra, hvað hún vilji gera fyrir þennan hóp. „Við þurfum að móta heildstæða stefnu á landsvísu um hvernig við ætlum að fást við þessa áskorun. Það er mjög brýnt að öll börn á Íslandi hafi jöfn tækifæri í skólakerfinu okkar. Og það sem við gerum; við þurfum þá að hlúa betur að íslenskunámi þeirra og það þarf líka að horfa til þess hvort ákveðin móðurmálskennsla geti stutt betur við framvindu þeirra í námi,“ segir Lilja.

Fram kom í máli Lilju á fundi um menntastefnu til ársins 2030 á Egilsstöðum á dögunum að brottfall nemenda með annað móðurmál en íslensku væri um 100% meira en annarra nemenda.

„Þessir nemendur sem hafa ekki góða móðurmálskunnáttu og ekki góða íslenskukunnáttu lenda oft í klandri þegar þeir koma upp á menntaskólastig og fara þá ekki í áframhaldandi nám. Þannig að mér finnst mjög mikilvægt að leggja mikið í að styðja við þessa nemendur,“ segir Margrét Pálsdóttir, tvítyngiskennari í Egilsstaðaskóla.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV