Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vonbrigði ef bakslag er í trausti til Alþingis

01.03.2019 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir það mikil vonbrigði að harkalegt bakslag hafi komið í traust til Alþingis eftir að betur hafi gengið að byggja það upp síðustu ár. Hann segir tíðindin þó ekki að öllu leyti koma á óvart enda hafi ýmsir atburðir komið uppá. Hann er bjartsýnn á að hægt verði að byggja upp traust á ný ef þingið fái til þess tíma.

 

Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups mælist traust til Alþingis 18 prósent og hefur lækkað um 11 prósentustig á milli ára. 

„Þetta eru auðvitað vonbrigði að það kemur harkalegt bakslag í þróun sem var í rétta átt árin á undan frá því að traust til Alþingis hrundi nánast til grunna eins og mjög margra fleiri aðila eftir hrun, en við vorum á réttri leið og nú kemur bakslag og það er verulega, vont veldur vonbrigðum. Ég get kannski ekki sagt að að það komi að öllu leyti á óvart.“

Hvað telur þú að geti hafa helst haft áhrif á þetta? „Sko, ég vil ekki tilgreina einhverja einstaka atburði eða einstaka hluti það sem ég bara bind vonir við er að ef Alþingi fær nú tímabil, einhver ár, þar sem að athyglin er fyrst og fremst á störfum þess og verkum sem það skilar þá er ég bjartsýnn á að við getum byggt þetta aftur upp,“ segir Steingrímur J. Sigfússon. 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV