Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vonbrigði að ekki sé hægt að treysta forseta

25.04.2016 - 16:50
Mynd: Ruv / Ruv
Bæring Ólafsson, sem ákvað í dag að hætta við að bjóða sig fram til forseta, segir ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um endurkjör vonbrigði. Það hafi komið sér á óvart að ekki var hægt treysta því sem forsetinn sagði í áramótaávarpinu. Hann segir líka að rök Ólafs Ragnars fyrir að gefa kost á sér til endurkjörs haldi ekki vatni.

Bæring er einn þeirra fjögurra forsetaframbjóðenda sem hættir  við framboð eftir að Ólafur tilkynnti að hann væri hættur við að hætta. Áður höfðu Guðmundur Franklín Jónsson, Heimir Örn Hólmarsson og Vigfús Bjarni Albertsson pakkað saman.

Bæring segir að hann hafi lýst því yfir að hann myndi ekki bjóða sig fram gegn sitjandi forseta. Hann standi við þau orð nú þegar Ólafur Ragnar stefni á endurkjör. Hann segir að ákvörðun Ólafs Ragnars sé vonbrigði. Hann sé bæði vel sjóaður og sigldur og hann sé þegar búinn að jafna sig.

„Það kom bara verulega á óvart að það væri ekki hægt að treysta því sem forseti vor sagði í áramótaávarpi sínu. Ég trúði því algjörlega að hann myndi ekki gefa kost á sér. Þetta kom mér í opna skjöldu. Maður verður bara að taka þessu og ég ætla ekki fram gegn Ólafi," segir Bæring.

Gekk bak orða sinna

Bæring er ekki endilega sammála því að  Ólafur Ragnar sé að bregða fæti fyrir þau sem höfðu ákveðið að gefa kost á sér og líka þau sem hugsanlega hefðu gefið kost á sér.

„Hann gekk kannski bara á bak orða sinna. Þetta er frjálst þjóðfélag og honum er frjálst að bjóða sig fram eins og öllum öðrum,"segir Bæring.

Rökin halda ekki

Hann tekur ekki undir rök sitjandi forseta fyrir endurkjöri. Þau haldi einfaldlega ekki vatni. Hann segir að hér sé fullt af hæfu fólki til að gegna þessu embætti. Ólafur sé ekki sá eini sem sé hæfur. Og Bæring kaupir ekki þau rök að ólga sé í samfélaginu. Það sé engin tryggingin fyrir því að eftir tvö eða átta ár verði ekki ólga.

„Ég sé ekki að það sé grunnur til að bjóða sig fram aftur. Ég held bara að hann langi í starfið og vilji vera áfram. Ég held að hann ætli sér það og meira að segja að eftir fjögur ár muni hann bjóða sig aftur fram," segir Bæring Ólafsson.

 

 

 

 

 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV