Vonast eftir niðurstöðu fljótlega

23.07.2012 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðherra segir að málefni Útlendingastofnunar séu til skoðunar og að hann vonist eftir niðurstöðu fljótlega. Forstjóri stofnunarinnar segir ástandið þar skelfilegt. Biðlistar séu allt of langir og starfsfólki hafi verið hótað.

Tæp tvö ár tekur að afgreiða mál hjá Útlendingastofnun og allt stefnir í metfjölda umsókna í ár. Kristín Völundardóttir, forstjóri stofnunarinnar segir ástandið óviðunandi. Álagið sé farið að taka toll af starfsfólkinu og hælisleitendur hafi hótað því.

„Við höfum gripið til ráðstafana sem ég tel að hafi verið til góðs, meðal annars að aðgreina í fjárlögum annars vegar fjárveitingar til starfsemi stofnunarinnar og hins vegar til hælisleitenda. Eftir stendur að það er mikið álag á starfsfólki Útlendingastofnunar,
ég tek undir með forstjóranum að þessu leyti. En þau mál eru öll til skoðunar eins og reyndar málefni fjölmargra annarra stofnana sem eiga við efnahagsþrengingar að stríða,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.

Kristín segir að það þurfi að ráða minnst fjóra lögfræðinga til viðbótar svo mál haldi ekki áfram að hrannast upp. Það sé og ódýrara að ráða þá en að halda uppi hælisleitendum. Í vor hafi ráðuneytið lofað tveimur nýjum lögfræðingum en ekki bóli enn á þeim.

 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi