Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vonast eftir löggjöf um jarðakaup í haust

12.07.2018 - 10:01
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - Mynd: RÚV / RÚV
Jarðarkaup útlendinga hér á landi hafa verið til umræðu innan ríkisstjórnarinnar. Starfshópur hefur verið að störfum og farið yfir málið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vonast til þess að ný löggjöf um málið verði tilbúin í haust. Hann telur að hert ákvæði um búsetu og atvinnustarfi á jörðum geti átt bæði við um Íslendinga og útlendinga.

Nærri þriðjungur allra jarða á Íslandi eru í eigu fyrirtækja. Ekki er hægt að fá upplýsingar um þjóðerni raunverulegra eigenda fyrirtækjanna, og því er ekki vitað hversu margar jarðir á Íslandi eru í eigu útlendinga.

Ef fjárfestingin er í gegnum fyrirtæki er nær ómögulegt að rekja hverjir endanlegir eigendur eru, og því ekki loku fyrir það skotið að útlendingar utan EES kaupi hér jarðir. Lögum samkvæmt mega þeir ekki kaupa jarðir á Íslandi án sérstaks leyfis frá dómsmálaráðherra. Rætt var við Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í sjónvarpsfréttum í gærkvöld. Hann sagði mjög erfitt að koma í veg fyrir að fyrirtæki kaupi jarðir í gegnum önnur fyrirtæki. „Þess vegna held ég að kröfur um notkunarrétt, nýtingarrétt og krafa um einhvers konar not á jörðinni séu betur til þess fallnar til að ná utan um þann þátt en löggjöfin ein og sér. Við höfum bara séð það, það er erfitt að hafa eftirlit með þessu.“

Brýnt að koma í veg fyrir að jarðir fari í eyði

Málið hefur verið til umræðu innan ríkisstjórnarinnar. „Við munum taka þetta fyrir á næstu fundum. Starfshópur hefur verið að störfum og við vonumst til að koma fram með eitthvað strax í haust, nýja löggjöf.“

Sigurður Ingi segir það alveg skýrt í lögum að útlendingar utan EES-svæðisins hafi ekki rétt til að kaupa jarðir nema með leyfi dómsmálaráðherra. „Varðandi borgara EES þá er það þannig að þau sjónarmið eru uppi um að þegar við breyttum lögum til að koma til móts við EES-reglur að við höfum jafnvel heldur gengið of langt.“ Hann segir það sjónarmið margra lögfræðinga að horfa eigi til þess hvernig málum sé háttað í Danmörku og Noregi. „Við erum mjög mörg þeirrar skoðunar að svæði utan þéttbýlis, jarðir og stærri landsvæði, eigi að vera í eigu Íslendinga eða þeirra sem búa á á jörðunum hér á landi og hafi af því atvinnu. Þannig að þar sé fólk sem búi í samfélaginu, búi til atvinnu en safni ekki að sér jörðum sem síðan getur leitt til þess að þær verði eyðijarðir og jafnvel eyðidalir.“

Vill horfa til löggjafar í Noregi og Danmörku

Bæði þarf að skoða jarðalög og ábúðarlög að dómi Sigurðar Inga. Hægt sé að setja reglur, til dæmis varðandi notkun á landi vegna landbúnaðar, menningarverðmæta og náttúruverndar. Einnig sé hægt að horfa til stefnu stjórnvalda um heilsársbúsetu og atvinnustarfsemi. Þessi ákvæði geti gilt bæði um útlendinga og Íslendinga. „Þarna getum við farið inn með kannski girðingar, sem áður var álitið að væru það, en ég held að sé bara eðlileg löggjöf. Ef við horfum á löggjöf, til að mynda Norðmanna og Dana, þá er hún með þessum hætti.“

Þekkt dæmi um umdeild jarðakaup útlendinga eru kaup hins svissneska Rudolfs Lamprecht á jörðum í Mýrdalshreppi, kaup breska auðmannsins Jims Ratcliffe á landsvæðum á Norð-Austurlandi, fjárfestingar fyrirtækis með óljóst eignarhald á jörðum í Fljótahreppi og kaup sænska timburframleiðandans Johns Haralds Örneberg, á jörðum við Ísafjarðardjúp.

Dómsmálaráðherra telur ekki rétt að banna kaup útlendinga

Eftir að jarðakaup Huangs Nubo voru í fréttum árin 2012 til 13 undirritaði Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, reglugerð sem gerði útlendingum innan EES óheimilt á kaupa fasteignir hér á landi nema að hafa hér fasta búsetu eða stunda hér atvinnustarfsemi. Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við innanríkisráðuneytinu var það eitt af hennar fyrstu verkum að fella þessa reglugerð úr gildi. Hanna Birna taldi reglugerðina ekki samræmast reglum EES. Þá stóð til að gera heildarendurskoðun á fjárfestingum útlendinga hér á landi. Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, segir að innan ráðuneytisins sé unnið í samræmi við niðurstöður nefndar sem gert var að skoða hvaða skilyrði skuli vera fyrir jarðakaupum útlendinga. Hún stefnir á að leggja fram frumvarp þess efnis á kjörtímabilinu. Ráðherrann telur ekki rétt að banna jarðakaup útlendinga.