Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vonast eftir ákvörðun á föstudag

16.09.2015 - 19:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra vonast til að á föstudag verði búið að kortleggja hversu mörgum flóttamönnum er hægt að taka á móti sem fyrsta hópi. Það gætu verið tugir manna.

Þrýstingur eykst um alla Evrópu
Straumur flóttafólks til Evrópu hefur þyngst geysilega frá því fyrir tveimur vikum þegar ríkisstjórnin skipaði ráðherranefnd um flóttamannamál. Svo virðist sem umfangið sé fyrst nú að koma í ljós. Þrýstingur eykst á stjórnvöld alls staðar í Evrópu um að bregðast við strax.

Ráðgert er að næsti fundur ráðherranefndarinnar verði á föstudag. „Ég á svona von á því að við verðum búin að kortleggja það hversu mörgum er hægt að taka vel á móti sem fyrsta hópi á næsta fundi,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann segir að það gætu verið tugir manna.

Taka á móti fólki beint úr flóttamannabúðum
Sigmundur segir að ekki verði þó hægt að tala um endanlegan fjölda því óvíst sé hversu margir komi beint til Íslands og leiti hælis. Það komi þó ekki í veg fyrir að tekið verði á móti flóttamönnum, væntanlega frá Líbanon. Hann býst ekki við að tekið verði við flóttamönnum frá Evrópu með skipulegum hætti. „Við munum leggja okkar af mörkum við að leysa vandann, en við munum gera það með því að gera fólki kleift að koma beint frá flóttamannabúðum.“

Vill að stjórn og stjórnarandstaða standi saman
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir seinagang. Sigmundur segir að honum finnist gagnrýnin fyrst og fremst snúast um þörf til að gera málið pólitískt, sem það eigi alls ekki að vera. „Í svona máli finnst mér að stjórnmálamenn eigi allir að geta staðið saman að því að vinna að sama markmiði, sem er það að bjarga sem flestum. Þetta snýst um mannslíf.“

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV