
Ríkisstjórn Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis funduðu um viðbrögð Íslands við málinu í dag. Eftir þá fundi var Vasiliev kallaður á fund utanríkisráðherra. Ægir Þór Eysteinsson ræddi við hann eftir fundinn. Þar sagði hann að öllum efnavopnum í Rússlandi hafi verið eytt og að árásin sé litin alvarlegum augum í Rússlandi þar sem hún hafi beinst að rússneskum borgurum á breskri grundu. „Við bíðum eftir útskýringum frá breskum stjórnvöldum,“ sagði hann.
Stuttu eftir fundinn tilkynnti utanríkisráðuneytið að Ísland tæki þátt í aðgerðum nágrannaríkjanna með því að ráðamenn myndu ekki mæta á heimsmeistaramótið í fótbolta næsta sumar og með því að fresta um óákveðinn tíma öllum fundum með rússneskum embættismönnum. Vasiliev sagði að á fundinum hafi hann og Guðlaugur Þór rætt stöðuna sem upp er komin. „Við viljum ekki að þetta atvik hafi alvarlegar afleiðingar á samskipti Íslands og Rússlands sem standa á sterkum grunni. Ég er viss um að svo verður áfram,“ sagði rússneski sendiherrann.