Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vonar að afnám hafta hefjist á þessu ári

16.07.2014 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra vonar að afnám gjaldeyrishafta hefjist á þessu ári. Ef ekki, gæti verið fullreynt að ná nauðasamningum við kröfuhafa gömlu bankanna og eðlilegra að bankarnir fari í þrot.

Í stjórnarsáttmálanum í fyrravor sagði ný ríkisstjórn að eitt mikilvægasta verkefni sitt væri að vinna að afnámi gjaldeyrishaftanna sem bjöguðu eignaverð og drægju úr samkeppnishæfi þjóðarinnar. Stjórnvöld hafa nú samið við bandaríska lögmanninn Lee Buchheit og fleiri erlenda ráðgjafa um aðstoð við að losa höftin. Forsætisráðherra segir að nú taki líka til starfa framkvæmdastjórn sérfræðinga sem verði í fullu starfi við að vinna að afnámi haftanna. 

 

Þokast í átt að frjálsari viðskiptum

Það eru bráðum sex ár frá því að gjaldeyrishöftin voru sett á. Afnám hafta er ekki hafið enn og deilt er um hvort þau verða afnumin á þessu kjörtímabilli, eða yfirleitt á meðan krónan er gjaldmiðill á Íslandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það sem gert hafi verið, hafi þokað Íslendingum í átt að frjálsari gjaldeyrisviðskiptum.

„Við erum komin miklu nær markmiðinu,“ segir Sigmundur. „Og það byggist annars vegar á því að af hálfu stjórnvalda er núna búið að kortleggja hvað þarf til, hvað leiðir eru færar við afléttingu haftanna. Og ég held að það sé líka að myndast aukinn skilningur á því hvað þarf til hjá þessum kröfuhöfum eða fulltrúum þeirra.“

 

Eitt ár eða mörg ár

Ekki hefur alltaf verið auðvelt að ráða í orð forystumanna ríkisstjórnarinnar um hvenær hægt væri að hefja afnám haftanna. Fjármálaráðherra boðaði strax í maí í fyrra að fljótlega yrði látið reyna á möguleika til að stíga fyrstu skrefin. Í haust sagði hann að hægt væri að aflétta höftunum á einu ári, eða jafnvel skemmri tíma, ef tækist að stilla af væntingar þeirra sem hagsmuna eiga að gæta.

Forsætisráðherra sagði á svipuðum tíma í viðtali við Reuters að mörg ár gætu lifið þar til samningar næðust við kröfuhafa föllnu bankanna og hægt yrði að aflétta höftunum.

„Auðvitað vonast maður til þess að það sé hægt að hefja þetta ferli á þessu ári. Það væri langæskilegast,“ segir Sigmundur. „Og ef að þetta ár líður án þess að komist hreyfing á þetta, þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það muni nokkurn tímann takast að ljúka einhvers konar nauðasamningum og hvort það sé þá ekki bara eðlilegra að bankarnir fari í þrot.“