Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vona að myndin opni augu fólks

Mynd: - / -

Vona að myndin opni augu fólks

06.09.2018 - 14:27

Höfundar

Lof mér að falla, nýjasta mynd leikstjórans Baldvins Z, verður frumsýnd í vikunni. Þetta er nöturleg frásögn um fíkn, sem er byggð á raunverulegum atburðum. Aðalleikkonur myndarinnar segja það hafa tekið á að undirbúa sig fyrir hlutverkin.

Handritið skrifa þeir Baldvin og Birgir Örn Steinarsson. Tilurð myndarinnar má rekja til þess að árið 2011 vann Baldvin að forvarnarverkefni. Í gegnum það komst hann yfir dagbækur konu sem hafði svipt sig lífi eftir að hafa lengi verið föst í viðjum fíknar og grimmra undirheima. Verkefnið datt upp fyrir en eftir sat Baldvin með sögur af nöturlegum veruleika sem honum fannst hann verða að miðla áfram.

„Þegar ég fór að segja öðrum sögu hennar og hvort fólk vissi af þessum heimi trúði fólk því ekki. Mér fannst ég vera knúinn til að opna augu fólks fyrir því að þetta er í gangi hérna, og það sem meira er hefur þessi heimur bara versnað frá því við byrjuðum að vinna að þessu verkefni. Þetta er miklu verra núna en þá.“ 

Leikkonurnar lykillinn

Baldvin segir að leikurinn hafi verið lykillinn að því að búa til trúverðuga frásögn. „Það þurfti að fá ákveðið „authenticity“ í leikinn. Að lokum enduðum við með tvær algjörlega óreyndar leikkonur sem komu í prufurnar til okkar og þær smullu algjörlega inn í þessi hlutverk.“

Mynd með færslu
 Mynd: -
Elín Sif Halldórsdóttir og Eyrún Björk Jakobsdóttir.

Leikkonurnar tvær, Elín Sif Halldórsdóttir og Eyrún Björk Jakobsdóttir, voru 18 og 19 ára þegar myndin var tekin upp. Þær leika söguhetjurnar tvær á unglingsárum en Lára Jóhanna Jónsdóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir leika þær eldri. Eyrún og Elín viðurkenna að þær hafi þurft að hugsa sig um og það hafi þurft að sannfæra fjölskyldur þeirra að leyfa þeim að taka þátt en þetta hafi verið of gott tækifæri til að afþakka.

Undirbjuggu sig í ár

„Við þurfum að fræðast og hitta alls konar fólk til að fá innsýn í þennan heim og það tók á. Það var ekki það einfaldasta í heimi. En við fengum hlutverkin næstum því ári fyrir tökur og fengum góðan tíma til að hægt og rólega kynna okkur hlutina og Baldvin hélt alltaf í höndina á okkur í gegnum hvert skref.“

Þær Eyrún og Elín segja myndina hafa opnað augu þeirra fyrir því hversu víðtækur og djúpstæður vandi fíkniefnaneysla ungmenna sé. 

„Ég vona að fólk almennt taki myndina inn á sig,“ segir Baldvin. „Ég hef sagt að myndin er ekki gerð í forvarnarskyni en maður vonast samt til að hún hafi áhrif í þá veru og opni augu fólks fyrir þessum raunveruleika sem er til staðar hér á Íslandi.“ 

Fjallað var um myndina í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.