Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Völdu aldrei að nýta endurheimt votlendis

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Óvissan sem ríkir um áhrif þess að endurheimta votlendi er svo mikil að stjórnvöld hyggjast ekki nýta þessa aðgerð formlega sér til framdráttar fyrr en í fyrsta lagi eftir að tímabil Kyoto-bókunarinnar rennur sitt skeið árið 2020. Ráðamenn hafa talað mikið um endurheimt en þeir hafa aldrei valið þessa aðgerð formlega. Það skortir rannsóknir og aðferðafræði, bæði til þess að kortleggja áhrif endurheimtar og áhrif framræslu. Hversu djúpstæð er vanþekkingin? Eru stjórnvöld á villigötum?

 

Í fyrra hleyptu stjórnvöld af stokkunum verkefni sem snýr að endurheimt votlendis. Um ferkílómetri var endurheimtur. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur að unnt sé að endurheimta 900 ferkílómetra framræsts lands til viðbótar á næstu árum. Sunna Áskelsdóttir, verkefnisstjóri endurheimtarverkefnis Landgræðslu ríkisins, sagði í Speglinum í síðasta mánuði að ekki hefði fengist fjármagn frá ríkinu til rannsókna á endurheimt votlendis, eins og tillögur samráðshóps umhverfisráðuneytis hefðu gert ráð fyrir.

Þá lýsti Þröstur Eysteinsson, Skógræktarstjóri, því nýlega yfir í samtali við fréttastofu að ekki væri óhætt að ráðast í endurheimt votlendis í stórum stíl nema að undangengnum frekari rannsóknum. 

„Rannsóknirnar sem liggja fyrir eru góðar og gildar, ekkert að þeim. Þær eru bara ekkert svakalega miklar og það eru sérstaklega ekkert miklar rannsóknir á því hvað gerist þegar við bleytum upp land."

Hann benti á að blautar mýrar losa líka gróðurhúsalofttegundir, metan nánar tiltekið, og sagði að sums staðar væri hugsanlega enginn loftslagsávinningur af því að fylla upp í skurði til að endurheimta votlendi. Það þurfi að mæla og sanna ávinning af endurheimt votlendis líkt og gert er með skógrækt og landgræðslu til að slíkar aðgerðir geti talið inn í kolefnisbókhald landsins. 

Ekki hægt að telja endurheimtaraðgerðir fram

Í nýlegri skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum kemur fram að það sé mat stjórnvalda að ekki sé hægt að telja endurheimt votlendis fram gagnvart skuldbindingum Kyótó-bókunarinnar á núgildandi tímabili, frá 2013 til 2020. Rannsóknir á áhrifum endurheimtar séu of skammt á veg komnar. Kyótó-bókunin gerir kröfu um að ríki sem velja að nýta sér endurheimt votlendis geti reiknað út ávinning af slíkum bindingaraðgerðum og gert grein fyrir aukinni losun vegna framræslu eftir 1990. Hvorugt sé hægt eins og er. Rannsóknir á ávinningi af landgræðslu og skógræktar eru komnar mun lengra á veg, hægt er að færa hann til bókar. 
 

Niðurstaða stjórnvalda kom ekki á óvart

 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðráður Jóhannsson

Það voru íslensk stjórnvöld sem fengu það í gegn árið 2012 að endurheimt votlendis yrði viðurkennd sem valkvæð aðgerð til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á seinna tímabili Kýótó-bókunarinnar, svo lengi sem hægt væri að sýna með skýrum hætti fram á ávinning. Stjórnvöld fóru fram á þetta vegna þess að íslenskar rannsóknir bentu til þess að þetta gæti verið vænlegt. 

„Það er í sjálfu sér merkilegt en kannski líka skýtur það svolítið skökku við að við skulum ekki hafa fylgt því eftir með fjármagni til þeirra rannsókna sem þarf til þess að nýta þessa aðgerð."

Segir Hlynur Óskarsson, vistfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og einn þeirra sem gert hefur rannsóknir á áhrifum endurheimtaraðgerða. Áður höfðu Íslendingar fengið landgræðslu samþykkta sem valkvæða aðgerð og valið að nýta hana. Hlynur segir að stjórnvöld hafi aftur á móti aldrei valið formlega að nýta sér endurheimt votlendis. Niðurstaða stjórnvalda nú, að ekki séu forsendur til að nýta þá aðgerð, kemur honum því ekkert sérstaklega á óvart. 

Stjórnvöld aldrei litið á þetta sem töfralausn

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í Umhverfisráðuneytinu, segir að stjórnvöld hafi aldrei litið á endurheimt votlendis sem töfralausn og að ekki hafi verið ljóst, þegar þau óskuðu eftir því að hún yrði viðurkennd, hvort þau myndu nýta hana. Þau hafi litið svo á að það væri rökrétt næsta skref að fá aðgerðina samþykkta. Það væri í samræmi við stefnu þeirra um að fá losun og bindingu vegna landnotkunaraðgerða metna. Hann segir að íslensk stjórnvöld hafi í raun komið endurheimt votlendis á dagskrá, orðið til þess að Alþjóðleg vísíndanefnd um loftslagsbreytingar, IPCC, fór að reikna almenna stuðla um ávinning af endurheimtaraðgerðum og mörg ríki fóru að horfa til hennar. 

Þriggja ára gluggi til að efla rannsóknir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, vinnur að nýrri aðgerðaáætlun á sviði loftslagsmála.

Nú hafa stjórnvöld þriggja ára glugga til þess að efla rannsóknir. Það verður svo að koma í ljós hvort endurheimt verður nýtt sem aðgerð til að standa við skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsáttmálanum en Ísland tekur þar þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja. Það er sleginn ákveðinn varnagli í skýrslu umhverfisráðherra. Þar kemur fram að innri reglur Evrópusambandsins um kolefnisbindingu og landnotkun séu strangari en reglur Kýótó-bókunarinnar og því óvíst hvort bindingaraðgerðir geti talist okkur til tekna innan Parísarsamningsins. Í skýrslunni segir þó að endurheimt votlendis verði áfram hluti af loftslagsstefnu stjórnvalda. Það sé loftslagsávinningur af endurheimtaraðgerðum hvort sem hægt sé að færa þær til bókar eða ekki. Á næstu árum þurfi að ráðast í endurheimt og rannsóknir á áhrifum endurheimtaraðgerða. Væntanleg aðgerðaráætlun stjórnvalda mun varpa ljósi á það hversu umfangsmiklar þessar aðgerðir og rannsóknir verða -  hvort stjórnvöldum finnst yfirleitt taka því að ráðast í miklar rannsóknir ef ekki er ljóst hvort endurheimt verður hluti af bókfærðum skuldbindingum okkar á Parísartímabilinu. 

Ósjálfbær nýting sem brýnt sé að bregðast við

Losun frá framræstu landi er stærsti losunarþáttur Íslands og stór hluti þessa lands er ekki í notkun. Hlynur segir að stjórnvöldum beri í raun að draga úr þessari losun óháð bókhaldi. 

„Sjálfbær nýting er grunnstef í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna og öllum samningum. Íslensk stjórnvöld hafa líka markað þá stefnu að sjálfbærni skuli vera grunnstef. Þetta er ekki sjálfbær nýting á landi, fyrst við erum ekki að nýta það. Það væri annað ef við værum að nýta það allt til matvælaframleiðslu. Þarna situr þetta land, því fer hnignandi og það er að losa mikið magn af kolefni. Okkur ber að gera eitthvað þetta er ekki sjálfbær nýting."

Grunnurinn liggur fyrir - margt þarf að rannsaka

En hversu mikil er óvissan um gagnsemi endurheimtar. Hlynur segir ýmislegt liggja fyrir. 

„Losun úr framræstu landi hvílir á mjög traustum vísindalegum grunni. Ferlin eru löngu þekkt. Það eru til mýmargar mælingar hvað varðar stærðargráðuna á þeirri losun. Það er líka þekkt og hefur verið alllengi að með því að bleyta upp í þessu og hrekja súrefnið úr jarðveginum dregur stórlega eða tekur fyrir þessa loftuðu rotnun. Reyndar upphefst þá loftfirrt rotnun sem er miklu, miklu hægara ferli og það losnar metan eins og losnar úr mörgum blautum mýrum. Það er reyndar sterkara per sameind en koltvísýringur en magn þess er svo margfalt lægra. Þetta er í einhverjum milligrömmum í staðinn fyrir grömm eða tugi gramma sem koltvísýringurinn er í."

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf

Búið að kortleggja alla skurði

Þetta eru almennar rannsóknir. Hlynur birti fyrir um áratug niðurstöður rannsókna sinna á áhrifum framræsingar á losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Hann segir þær koma heim og saman við rannsóknir sem gerðar hafa verið annars staðar. Þá hafi fræðimenn við Landbúnaðarháskólann kortlagt alla skurði hér á landi og kannað hlutfall lífræns efnis í þeim. Það sé sífellt að fást betri mynd af stöðunni. En er hægt að fullyrða að það sé alltaf loftslagsávinningur af því að fylla upp í skurði hér á landi?

„Við erum náttúrulega bara rétt að hefja þá vegferð. Það er mikilvægt að tryggja að það fái fé í að taka slíkt út. Það gagnast ekki að moka ofan í skurð þar sem ekki er mór til staðar. Við erum að tala um losun úr mómýri en það er lítill efi ef það er mómýri sem er framræst. Þetta er aðgerð sem var samþykkt innan loftslagssamninginn og sú aðgerð hefði ekki verið samþykkt nema hún væri trygg og örugg og byggð á góðum vísindalegum grunni. Þá er alltaf verið að tala um mómýrar. Hér á landi hefur verið bent á og það er rétt að sums staðar þar sem eru mómýrar að myndast er mikil ákoma gosefna eða áfoksefna sem geta gert mýrarnar steinefnaríkari. Við höfum aðeins mælt í slíkum mýrum og þá er það breytilegt hversu mikið er að losna. Það þyrfti að ná betur utan um slíkar tölur en við höfum gott mat á megingerðina af íslenskum mýrarjarðvegi og þær tölur ríma algerlega við tölur erlendis."

Þarf að hanna aðferðir til að mæla bindingu og losun

Ef stjórnvöld vilja halda þeim möguleika opnum að fá endurheimt metna verður að vera hægt að bókfæra bindingu og losun. Þá verður að búa til aðferðafræði þannig að hægt sé að meta árangur af hverri framkvæmd. 

„Segjum að einhver landeigandi komi með svæði þar sem hann vill láta endurheimta votlendi, þá þurfum við að meta hversu umfangsmikil framræslan er því það er ákaflega breytilegt eftir staðsetningu í landi og ýmsu öðru hversu mikið hann ræsir fram landið. Það þarf að meta slíkt. Það þarf að taka jarðvegssýni og meta magn kolefnis á svæðinu. Í kjölfar framkvæmda þarf að lágmarki að vakta vatnsstöðubreytingar vel til einhvers tíma til að sjá hvort þær séu varanlegar. Það þurfa að vera tékkmælingar á gasbúskap til að sjá hvort umbreytingin er eða staðfesta að það hafi dregið úr losun. Það þarf fjármagn í að hanna þessar aðferðir."

Þá þarf líka að hanna aðferðafræði til þess að meta hversu stórt landsvæði hefur verið framræst frá árinu 1990 og hversu mikið er verið að framræsa í dag. Þetta liggur ekki fyrir. Talið er að framræst land sé um 4000 ferkílómetrar. Framræslan var vel skráð þar til ríkisstyrkir vegna framræsingaraðgerða féllu niður árið 1987. Hlynur segir að nú sé skráning brotakennd, einstaka ráðunautur haldi utan um þetta. 

„Það þyrfti einhvers konar reglugerð eða tilkynningaskyldu því þetta þarf auðvitað að gefa upp á sama tíma, hversu mikið er verið að ræsa fram af mómýrum."

Jón Guðmundsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands hefur reynt að áætla út frá takmörkuðum gögnum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins hversu mikið var framræst á Íslandi árið 2015 og eru þær tölur notaðar í loftslagsbókhaldi Íslands. Hann telur að það ár hafi verið grafnir 66 kílómetrar af skurðum hér á landi. Það dugar að hans sögn til að þurrka upp um 700 hektara lands, áttfalt meira en var endurheimt í fyrra. Jón segist ekki hafa ástæðu til að halda að minna hafi verið grafið í fyrra. Við virðumst því vera í margföldum mínus. Eitthvað er þó um að grafnir séu skurðir á landi sem þegar hefur verið ræst fram, að verið sé að þétta skurðanetin. Því þarf að taka þessum tölum með nokkrum fyrirvara.

Finnst að banna ætti nýframræslu

Enn er meira ræst fram en endurheimt og losun frá framræstu landi minnkar eftir því sem lengra líður frá framræsingu. Getur verið að stjórnvöld séu á villigötum? Ættu þau að einbeita sér að því að draga úr nýframfæslu í stað þess að endurheimta votlendi? 

„Það er hárrétt. Gagnvart loftslagssamningnum þarf þetta að vera tvíhliða. Við verðum að telja fram það sem við ræsum fram. Það þýðir ekki bara að telja fram hversu mikið við mokum í skurði. Enn er það svo, því miður, að við ræsum fram meira en er endurheimt. Persónulega finnst mér, eins og til dæmis Bandaríkin hafa gert, að það ætti bara að banna alla nýframræslu, nema þá sem er virkileg þörf á."