Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Voguing – dans hinna jaðarsettu

Mynd: Miramax / Miramax

Voguing – dans hinna jaðarsettu

13.03.2017 - 09:13

Höfundar

„Þetta er einstakt samfélag. Það sem maður gerir sér ekki grein fyrir, og veit ekki, er að okkar helstu fyrirmyndir innan popptónlistar dagsins í dag eru undir áhrifum þessa menningarkima. Þetta eru samkynhneigðir karlmenn sem eru búnir að hanna og móta stefnu poppkúltúrsins í dag,“ segir Brynja Pétursdóttir um voguing-dansinn sem má rekja til ball-menningar 9. áratugarins.

Voguing er dans sem á rætur að rekja til ball-menningar New York-borgar á 9. áratugnum. Þeir sem sóttu viðburði ball-samfélagsins voru samkynhneigðir, transfólk og klæðskiptingar. Oftast svartir eða suðuramerískir einstaklingar – jaðarsettir hópar fólks í samfélaginu. 

Paris is Burning

Paris is Burning er margverðlaunuð heimildarmynd frá árinu 1991 sem veitir áhugaverða og fágæta sýn inn í téða ball-menningu. Ball-menningin sækir nafn sitt til enska orðsins „ballroom“ sem á íslensku er danssalur. Á viðburðunum var þó ekki endilega dansað, heldur var líkt eftir tískusýningum og keppt í hinum ýmsu flokkum eftir þemum atriða – til dæmis „Realness“, „Bizarre“, „American Runway“, „Iconic“, „Labels“ og „Voguing“.

Mynd með færslu
 Mynd: https://moviescene.files.wordpre
Paris Is Burning, 1991.

Í „Realness“-flokknum skyldi líkt eftir gagnkynhneigðum svo ekki væri hægt að sjá skilin á milli – nánast eins og farið væri aftur inn í skápinn. Í flokki vörumerkja eða „Labels“ var dæmt eftir fjölda vörumerkja sjáanlegum á keppendum, því fleiri því betra. Þátttakendur voru fæstir auðugir að fé og því þótti sjálfsagt að hnupla rándýrum fatnaði til að auka líkur á sigri – sér í lagi í flokki vörumerkja. Innan ball-hefðarinnar var drukkið kampavín og líkt eftir heimi hinna útvöldu – heimi ríka, fína og hvíta fólksins sem gekk um fimmta breiðstræti New York-borgar.

Poppdrottningin Madonna vakti mikla athygli á voguing-dansinum með myndbandi við lag sitt sem var samnefnt dansinum.

Félagsskapurinn var mikilvægur fyrir þennan jaðarsetta hóp fólks. Þetta voru ekki bara leiknar eða ýktar tískusýningar og dulargervi: Í draginu er fólgið ákveðið vald – með því að líkja eftir hinum útvöldu og setja líf þeirra á svið líktu þau eftir valdi þeirra.

Voguing

Voguing er dans sem á rætur að rekja til þessara danskvölda. Madonna vakti athygli á honum í laginu fræga „Vogue“ en hún hafði kynnst tækninni frá tveimur meðlimum ball-samfélagsins – þeim Jose Gutierez Xtravaganza og Luis Xtravaganze. Madonna átti því stóran þátt því að færa voguing-dansinn frá hinsegin-senunni Harlem og yfir í alþýðumenningu víða um heim. 

Lestin ræddi við dansarann Brynju Pétursdóttur um voguing-dansinn sem hún lærði í New York-borg um tíu ára skeið.